140. löggjafarþing — 69. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[23:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef undir þessari umræðu og með því að lesa greinargerð með frumvarpinu verið að reyna að átta mig á stóru myndinni í málinu. Mér sýnist að í stuttu máli megi segja sem svo að röksemdafærslan á bak við þetta sé sú að til að hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin þurfi fyrst að herða þau. Þetta er svipuð röksemdafærsla og ef menn segja: Til að leysa hnútinn þarf fyrst að binda hann. Þetta er einhvern veginn röksemdafærslan sem kemur hér í gegn, það er verið að reyna að færa rök fyrir því að til að hægt sé að fara í alvöruaðgerðir við að leysa um gjaldeyrishöftin þurfi að setja undir alla leka til að síðan sé hægt að ráðast í þetta með einhverju skipulagi.

Ef við skoðum þetta líka í heildarsamhengi virðast menn vera að reyna að ná utan um tvenns konar meintan vanda. Annars vegar það sem menn hafa kallað HFF-bréfin sem eru bréf sem eru útgefin af Íbúðalánasjóði sem menn telja að hafi borið á að menn séu að kaupa þegar fer að styttast í gjalddagana til að geta náð sér í vextina, verðbæturnar og afborganirnar og komið þeim úr landi. Þetta er annað vandamálin sem menn eru að reyna að ná hér utan um.

Hins vegar er hitt og það er það sem snýr að fjármagnshreyfingunum frá þrotabúunum sjálfum. Það er sá þáttur málsins sem mig langar til að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar um. Hann greindi frá því í ræðu sinni áðan að nú væri í undirbúningi, a.m.k. væru menn að íhuga það, að búa til undanþágu frá þeim nýju reglum sem ætti að fara að setja sem fæli það í sér að annars vegar mætti flytja úr landi eignir sem væru erlendis og hins vegar eignir sem væru í Seðlabankanum. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann: Hver er stærðargráðan sem um er að ræða í þessu sambandi? Hverju mun þetta breyta? Hvaða hlutfall er um ræða af þeim heildarvanda sem við er að glíma? Er hv. þingmaður að boða einhverjar alvörubreytingar eða hverjar eru tölurnar í hlutfallslegum stærðum sem um er að ræða annars vegar í eignum erlendis og í eignum í Seðlabanka hins vegar?