140. löggjafarþing — 69. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[23:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, það er full ástæða til að vera bjartsýnn um það sem fram undan er í íslensku efnahagslífi. Við getum þakkað fyrir að við bjuggum á liðnu ári við allnokkurn vöxt í efnahagsstarfseminni og við getum vænst þess að það haldi áfram í ár og á næsta ári. Sígandi lukka er best, hygg ég að sé sá lærdómur sem við megum draga af undanförnum árum í efnahagsmálum, en um leið að við þurfum að gæta þar nokkurs raunsæis. Ég get út af fyrir sig tekið undir það með hv. þingmanni að meðan snjóhengjan sem kölluð er, aflandskrónurnar, hefur ekki verið að minnka meira en raun ber vitni á þeim tíma sem liðinn er þá eru líkur á því að tekist hafi að leysa það vandamál fyrir árslok 2013 orðnar harla litlar.

Ég tel raunar að það kalli á nokkuð aðra nálgun okkar á því viðfangsefni sem höftin eru. Við þurfum í ríkari mæli að reyna að létta af fólki og fyrirtækjum í landinu ýmiss konar armæðu sem þeim fylgir og reyna að opna sem mest fyrir verslun og þjónustuviðskipti og viðskipti einstaklinga milli landa en afmarka þennan aflandskrónuvanda og vinna úr honum yfir lengri tíma. Sannarlega hefur atbeini lífeyrissjóðanna verið nokkur en við þurfum að fara gætilega og lífeyrissjóðirnir mega auðvitað ekki fara of geyst í því að flytja erlendar eignir heim til að losa út stöður aðila sem vilja héðan út. Við þurfum líka að gæta þess að ráðast ekki í mikla skuldabréfaútgáfu á vegum ríkissjóðs til að leysa þetta út því að þetta eru fjármunir einkaaðila og það er verið að bjóða upp á lausnir á markaði, meðal annars til að fjárfesta innan lands fyrir þetta fé, sem ég held að fyrst og fremst eigi að beina þessari snjóhengju í.