140. löggjafarþing — 70. fundur,  13. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[00:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það mál sem við ræðum hér í kvöld og nótt er í reynd afskaplega dapurlegt dæmi um það þegar fólk með sameiginlega hagsmuni vinnur ekki saman. Nokkrir aðilar fara fyrir hönd jöklabréfaeigenda en það eru þeir sem dældu inn peningum til Íslands í góðærinu og héldu við genginu og ollu miklu fjöri. Þeir eigendur hafa hag af því að íslenskt atvinnulíf gangi vel, þannig að þeir geti fengið greitt. Kröfuhafar föllnu bankanna sömuleiðis, þeir eru aðallega þrír. En svo virðist vera að þessir aðilar hugsi hver um sig: Ég ætla að reyna að sleppa út á meðan hinir komast ekki.

Síðan hefur hæstv. ríkisstjórn sem búin er að halda upp á þriggja ára afmæli sitt, verið sofandi á verðinum í þessu. Þetta lá fyrir fyrir löngu síðan og auðvitað átti að semja við þessa kröfuhafa og segja við þá: Þið hafið hagsmuni af því að íslenskt atvinnulíf gangi. Annars fáið þið aldrei greitt eða mjög hægt. Þetta átti að gera fyrir löngu síðan.

Mér skilst að í kvöld hafi verið samið um eitthvað við einhverja kröfuhafa um að milda reglurnar. Loksins, loksins eru menn sestir að samningaborði í stuttan tíma í efnahags- og viðskiptanefnd, ég þekki það ekki, ég er ekki í nefndinni. En þetta er eitthvað sem menn áttu að leggja áherslu á fyrir löngu síðan og segja við þessa aðila: Þið hafið hag af því að íslenskt atvinnulíf geti greitt ykkur og þið eigið að standa með okkur í því að finna lausnir og vinna að lausnum sem leysa sameiginlegan vanda okkar. Það hefur því miður ekki tekist, en það má vel vera að það takist héðan í frá. Það verður að koma þessum aðilum í skilning um að hagsmunir þeirra og hagsmunir íslensks atvinnulífs fara saman.