140. löggjafarþing — 70. fundur,  13. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[00:25]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Þessi umræða um gjaldeyrishöftin og nýjar og hertar reglur um þau efni hlýtur að kalla á að við ræðum í þinginu stöðu efnahagsmála í víðara samhengi og raunhæfa möguleika okkar á að afnema höftin á næstu missirum eins og stefnt hefur verið að. Í umræðunni hefur meðal annars verið dregið fram að afgangur af viðskiptum við útlönd rétt stendur undir þeim lánum sem höfum þegar ákveðið að taka til að byggja upp einhvern forða og að öðru leyti hvíla á íslensku efnahagslífi.

Þegar sú staða blasir við okkur að afgangurinn sé rétt um 100 milljarðar, rétt rúmlega það sem við þurfum að greiða í vexti af erlendum lánum, er líka mikilvægt að hafa í huga að það er staðan þegar miðin á Íslandi eru sérstaklega gjöful, þegar verðið á erlendum mörkuðum er hátt, þegar verðið sem fæst fyrir álið er líka hátt og við sjáum metfjölda erlendra ferðamanna á Íslandi. Þegar öll ytri skilyrði eru okkur hvað hagfelldust eigum við rétt svo fyrir afborgunum af þeim lánum sem hér hafa verið tekin í íslensku efnahagslífi þannig að við séum réttu megin við núllið.

Þá bætist við að í þessari umræðu horfumst við í augu við mörg hundruð milljarða af íslenskum krónum sem vilja leggja á flótta og við erum sífellt að herða reglurnar. Nú koma menn í annað skiptið á einungis fimm eða sex mánuðum og segja: Hérna er það sem þarf að gera til að við náum endanlega utan um vandann. Þetta er það sama og var sagt síðast í september. Í millitíðinni hefur manni ekki vaxið trú á að við værum yfir höfuð að ná utan um vandann og enn síður að ríkisstjórnin væri að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að efla trú á íslensku atvinnulífi. Þvert á móti hefur tafist að hér kæmi fram frumvarp um nýja skipan laga um stjórn fiskveiða. Nýjustu fréttir frá ríkisstjórninni eru þær að það eigi að fækka virkjanakostum í nýtingarflokki, draga úr þeim, og um nýliðna helgi lét forsætisráðherra þau orð falla að gjaldmiðillinn okkar væri í raun og veru ónothæfur. Þetta leggst allt á einn veg. Ríkisstjórnin virðist fullkomlega ófær um að leysa það grundvallarverkefni sitt að efla trú og auka traust á efnahagslífinu. Hér hef ég ekki nefnt hinn alvarlega vanda sem er sá að ríkissjóður er að sjálfsögðu rekinn með gríðarlegum halla sem er frumforsenda þess að gjaldmiðillinn geti sótt sér einhvern nýjan styrk. Á síðasta ári vantaði í hverja einustu viku heilan milljarð til að við ættum fyrir útgjöldum. Það sýnir rekstrarjöfnuðurinn. Í hverri viku vantaði að meðaltali milljarð í ríkiskassann til að eiga fyrir reikningunum sem þangað bárust. (Gripið fram í: … þjóðar …) (Gripið fram í: Af hverju? Út af hverju skyldi …)

Ríkisstjórnin hefur valið þann kost að (Gripið fram í.) fresta fjárfestingarverkefnum sem skammtímaleið til að draga úr hallanum á ríkissjóði, en raunverulegur niðurskurður í rekstrinum hefur aftur á móti látið á sér standa. Á tekjuöflunarhliðinni er staðan sú að ef markmiðin sem sett voru fram í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins á árinu 2009 hefðu gengið eftir fram á þennan dag værum við með um það bil 150 milljörðum meiri fjárfestingu á ári. Reiknið það síðan yfir í nýjar tekjur fyrir ríkissjóð. Það er stóralvarleg staða uppi og hún tengist því máli sem hér hefur verið lagt fram og möguleikum okkar til að bæta lífskjörin í þessu landi til lengri tíma. Það er fullkomlega ótrúverðugt þegar sama ríkisstjórnin sendir á fárra daga tímabili út þau skilaboð að gjaldmiðillinn sé ónýtur og hins vegar að það sé verið að herða höftin til að við getum bráðum farið að afnema þau. Það er fullkomlega ótrúverðugt. Þessa ríkisstjórn er ekki hægt að styðja í þessu máli frekar en nokkru öðru.