140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilsverða máli af því að eitt stærsta verkefni samtímans er að auka fjárfestingar í menntun og ekki síst á háskólastiginu. Háskólastigið hefur sprungið út á síðustu 10–15 árum og því fylgdi fjölgun skóla, mikil fjölgun nemenda, fjölgun námsbrauta og ýmsir vaxtaverkir sem núna er mikilvægt að taka á. Það eru jákvæðir fylgifiskar þess að háskólastigið sprakk út á stuttum tíma. Framlög hafa aukist, eins og þingmaðurinn rakti ágætlega, og við þurfum að sjálfsögðu að gera betur þegar borð verður fyrir báru.

Við þurfum að ígrunda vel næsta skref svo sem fjármögnun opinberu háskólana versus þá sjálfstætt starfandi og við getum ekki skorast undan umræðu um skólagjöld og öðrum leiðum til að fjármagna nám á háskólastigi. Við getum heldur ekki skorast undan því að taka mjög fljótlega afstöðu til aukins samstarfs og samruna háskóla á Íslandi svo eftir standi tveir, í mesta lagi þrír háskólar, sá þriðji væri mögulega sérstakur landsbyggðarháskóli eins og Háskólinn á Akureyri er í dag. Það eru þeir kostir sem við stöndum frammi fyrir og því lengur sem við frestum þessu þeim mun lengur dregst það að okkur takist að stórefla háskólastigið enn frekar. Þetta eru þau tvö stóru verkefni sem við þurfum að ráðast í í þessum efnum. Við getum ekki skorast undan skólagjaldaumræðu og við getum ekki heldur skorast undan því að taka afstöðu til þess hvort og hvernig skólar renni saman með það að markmiði að eftir standi tveir háskólar á Íslandi, í mesta lagi þrír.