140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Aðalmeðferð fyrir landsdómi hefur nú staðið á aðra viku. Búið er að yfirheyra tugi vitna en samtals hafa saksóknari Alþingis og verjandi ákærða kallað yfir 50 einstaklinga til skýrslugjafar í Þjóðmenningarhúsinu. (Gripið fram í: Ákæra …) Óhætt er að segja að margt fróðlegt hafi komið fram við þessar vitnaleiðslur og margar yfirlýsingar sem gefnar hafa verið vakið verðskuldaða athygli.

Þá vekur athygli að margt stangast á í vitnisburði einstakra aðila við ýmsa þætti í aðdraganda hrunsins á haustdögum 2008. Það er mikilvægt fyrir samfélagsumræðuna í eftirmála hrunsins að þessar vitnaleiðslur eigi sér stað og það er ekki annað að heyra en að bæði sá ákærði og ýmsir aðrir sem komið hafa í vitnastúku fagni því tækifæri sem nú gefst til að skýra aðkomu sína að málum.

Umfjöllun um vitnaleiðslurnar eru eðli málsins samkvæmt umfangsmikil í fjölmiðlum en hún er með nokkuð sérstökum hætti þar sem fjölmiðlum hefur verið meinað að senda út beint frá Þjóðmenningarhúsinu. Það hefur verið gagnrýnt harðlega og sú gagnrýni er fyllilega réttmæt. Almenningur verður að reiða sig á frásögn fjölmiðla af vitnaleiðslum og réttarhaldi en getur ekki haft beinan og milliliðalausan aðgang að þeirri umræðu sem fram fer. Aðstæður fjölmiðla eru óboðlegar og þrátt fyrir góðan vilja, tvitterfærslur og almenna fréttaumfjöllun skila umræðan og upplýsingar sér ekki til almennings með þeim hætti sem ásættanlegt er og brýn ástæða væri til.

Umræðan sem nú fer fram fyrir landsdómi skiptir miklu máli fyrir þjóðina alla. Til að tryggja að þær upplýsingar sem þar koma fram skili sér til þjóðarinnar og hún geti lagt sjálfstætt mat á þær er brýnt að tryggja aðgengi almennings að þeim umræðum sem nú eiga sér stað. Upplýst hefur verið að landsdómur lætur hljóðrita vitnaleiðslur og allar umræður fyrir dómnum. Ástæða er til að óttast að þær hljóðupptökur verði ekki aðgengilegar almenningi fyrr en eftir áratugi. Það er með öllu ótækt. (BirgJ: Heyr, heyr.) Ég tel afar brýnt að Alþingi sjái til þess að þessar upplýsingar verði opnar almenningi, fjölmiðlum og fræðasamfélaginu strax að loknu dómshaldi. Ef Alþingi þarf að gera sérstakar samþykktir til að svo megi verða hvet ég þingheim (Forseti hringir.) til að sameinast um slíka samþykkt hið fyrsta. (BirgJ: Heyr, heyr.)