140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að í engu siðuðu landi mundu forustumenn ríkisstjórnarinnar tala af slíkri óvirðingu um gjaldmiðil eins og hæstv. forsætisráðherra hefur gert og stundum hæstv. utanríkisráðherra (Utanrrh.: Aldrei eins og þið …) og ýmsir aðrir. Ég minni á að við framsóknarmenn vildum opna þá umræðu að skynsamlegt væri að skoða gjaldmiðlamál í víðasta samhengi og ég held að það sé skynsamlegt. Það er afar óskynsamlegt af ríkisstjórnarflokkunum og nú síðast hæstv. fjármálaráðherra í hádegisfréttum að slá það út af borðinu þegar auðvitað er augljóst að halda þarf öllum leiðum opnum og skoða það sem skoða þarf. Hér í gær voru gestir frá maltneska þinginu, þingforseti og þingflokksformenn þeirra flokka sem þar á þingi sitja og ég átti tal við annan þeirra. Hann sagði að bæði sjávarútvegur og landbúnaður Möltu væru að drepast eftir inngönguna í Evrópusambandið, einfaldlega vegna þess að menn hefðu ekki varið það sem verja þurfti í þeim efnum. Er þá rétt að minna á ástandið í Grikklandi en Grikkir hafa uppgötvað eftir hrunið að þeir hefðu betur varið landbúnað sinn og fæðuöryggi vegna þess að nú þurfa þeir að eyða umtalsverðum fjármunum, sem þeir sannarlega eiga ekki til, í matvæli til þess eins að brauðfæða þjóðina. Hver er stefna ríkisstjórnarflokkanna hér? Í ríkisstjórnarsáttmálanum var sagt að auka ætti landbúnaðarframleiðslu um 10%, ef ég man rétt. Hvar stendur sú vinna hjá ríkisstjórnarflokkunum? Hvergi. Hæstv. forsætisráðherra hefur verið spurður að því, hv. þm. Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson sem þá sat á þingi spurði og það kom ekkert svar. Ekkert svar vegna þess að stefnan er engin. Við sjáum hvernig ríkisstjórnarflokkarnir hafa hagað sér gagnvart sjávarútveginum, mikilvægustu atvinnugrein okkar og hvernig það ástand er allt saman. Hvergi er staðið á bremsunni og hvergi varist, (Forseti hringir.) við gætum endað eins og Malta, með dauðan sjávarútveg og dauðan landbúnað.