140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Segja má að sú breyting gjaldeyrishafta sem unnið var að hér fram á nótt sé dæmigerð fyrir stöðuna almennt í málum hjá þessari ríkisstjórn. Auðvitað hefðum við átt að vera að vinna að því að afnema gjaldeyrishöftin en ekki að þétta þau og gera þau enn harðari. Það er ekki ráðist að rótum vandans í samfélagi okkar af hálfu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna. Við getum rætt um lausnir á vandamálum heimila, fyrirtækja, afnám gjaldeyrishafta, og allar grunnlausnir á þessum vandamálum liggja í sömu rótinni, rót sem við þurfum náttúrlega að næra. Það gerist ekki nema hér verði eflt atvinnustig og verðmætasköpun í samfélaginu.

Við horfum upp á það hvernig vinnubrögðin eru varðandi rammaáætlun sem átti að verða grunnsáttatónn um það hvernig við mundum haga nýtingu orkuauðlinda okkar til lengri framtíðar. Það er allt í uppnámi hjá ríkisstjórninni, hún er komin í pólitísk hrossakaup. Búið er að taka út hagkvæmustu virkjunarkosti landsins, hagkvæmustu virkjunarkosti bæði í umhverfislegu og efnahagslegu tilliti að mati allra helstu sérfræðinga, m.a. forstjóra Landsvirkjunar, sem um það vitna.

Við höfum staðið ráðherra að miklum tafaleikjum þegar kemur að þessum mikilvæga málaflokki sem er grunnurinn að því að við getum endurreist íslenskt samfélag. Þess er skemmst að minnast hvernig viðbrögðin voru í þingsal þegar stórfyrirtækið Alcoa ákvað að hætta við framtíðaráform sín og uppbyggingu á Bakka. Þá klöppuðu þingmenn í þingsal, þeir klöppuðu fyrir því. Nú er aftur á móti nokkrum mánuðum síðar helsta von okkar að svissneskt fyrirtæki muni koma til bjargar á Bakka og byggja þar upp álver. Hver er afstaða hv. þingmanna gagnvart því, virðulegi forseti? (Forseti hringir.) Ábyrgðarleysi þingmanna stjórnarflokkanna er algjört, virðulegi forseti, þegar kemur að þessum mikilvæga málaflokki og svona geta hlutirnir einfaldlega ekki gengið lengur, það verður að fara að sýna einhverja ábyrgð við stjórn landsins.