140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að ræða um uppákomu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun þar sem fram kom að fulltrúar í stjórnlagaráði væru á harðahlaupum undan því að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði samhliða forsetakosningunum, en það verður að bíða betri tíma vegna þeirrar umræðu sem hefur farið fram hér um gjaldmiðilsmál landsins.

Fram kom á Sprengisandi, þætti sem er útvarpað á Bylgjunni á sunnudögum, hjá hæstv. utanríkisráðherra að hann teldi að við værum nú á fullri ferð og gætum brátt tekið upp evru. (Gripið fram í.) Féllu þau ummæli í kjölfar þess að framsóknarmenn héldu vel heppnaða ráðstefnu um síðustu helgi um það að skoða upptöku kanadadollars. Þar kom fram í máli (Gripið fram í.) framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins að það stappaði nærri landráðum ef ríkisstjórnin skoðaði ekki þann möguleika að taka upp samstarf við Kanadamenn, svo fast kvað sá framkvæmdastjóri að orði. Samfylkingin hefur hingað til hlustað á Samtök iðnaðarins.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði í þessu útvarpsviðtali að hann teldi mjög stutt í að við Íslendingar gætum tekið upp evru. Það væri sérstaklega tvennt sem mundi leiða til þess, í fyrsta það að ríkisskuldir væru ekki svo háar sem raun ber vitni. Benti ráðherrann á að peningalegar eignir okkar væru hlutfallslega góðar vegna mikilla eigna ríkisins í bönkunum, þá sérstaklega Landsbankanum. Í öðru lagi átti lífeyrissjóðakerfið okkar að vera einstakt fyrir Evrópusambandið í samningunum.

Virðulegi forseti. Þarna gaf hæstv. utanríkisráðherra út að hann og Evrópusambandið litu svo á að lífeyrissjóðakerfi landsmanna, sem á eignir upp á rúmlega 2 þús. milljarða, væri eign íslenska ríkisins á forræði ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í.) og (Forseti hringir.) og að með það mætti spila að vild sem skiptimynt fyrir að ganga í Evrópusambandið. Þetta er grafalvarlegur hlutur.