140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. (Gripið fram í.) Er hv. þm. Jón Gunnarsson með orðið eða ég?

(Forseti (ÁRJ): Hv. þingmaður hefur orðið. Forseti biður þingmenn um að gefa hljóð.)

Ég þakka kærlega fyrir það, frú forseti. Ég tel mjög mikilvægt núna þegar við erum að prufukeyra nýju þingsköpin okkar að við virðum þau. Ég tel reyndar líka mjög mikilvægt að gestum sem koma á fundi nefnda sé ekki sýnd slík lítilsvirðing sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gerði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun (Gripið fram í.) þegar hún tók sig til af fádæma smekkleysi, áður en gestir höfðu yfirgefið fundarherbergið, og tísti á fésbókarsíðu sína eitthvað sem mátti skilja sem túlkun hennar á tali eða orðum gesta.

Mig langar þess vegna til að vekja athygli á því sem kannski hefur farið fram hjá einhverjum þingmönnum, þar með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að í 19. gr. nýrra þingskapa er að finna skýr ákvæði um það hvernig fundir í nefndum Alþingis skuli vera. Þeir eru þrenns konar, í fyrsta lagi er um að ræða lokaðan fund, vinnufund, eins og þann sem nefndin sat á í morgun og um það segir, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að vitna til orða nefndarmanna eða gesta sem falla á lokuðum nefndarfundi nema með leyfi viðkomandi, sbr. þó 2. mgr.“ sem vísar til næstu tegundar nefndarfunda sem eru gestafundir þar sem fjölmiðlar eru boðnir. Í þriðja lagi er síðan hægt að halda opinn nefndarfund sem skal haldinn í heyranda hljóti og sendur út í sjónvarpi og á vef samkvæmt nánari reglum forsætisnefndar.

Frú forseti. Þarna stendur ekkert um að einstaka þingmenn skuli taka að sér að halda úti beinum útsendingum í gegnum vefinn (Forseti hringir.) á því sem fer fram á fundum nefndarinnar.