140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sumir stjórnmálamenn virðast halda að ráðherrar eigi og geti talað upp gengi íslensku krónunnar. Hvern halda þessir stjórnmálamenn að þeir séu að plata? Staða íslensku krónunnar er með þeim hætti að við höfum þurft að setja höft á eignir erlendra manna svo nemur hundruðum þúsunda milljóna króna í þessu landi. Við höfum orðið að segja við erlenda menn að þeir megi vissulega fara úr landi en að þeir séu ekki í færum til að taka peningana sína með sér vegna þess að við getum ekki látið þá hafa gjaldeyri fyrir þær krónur sem þeir eiga. Þess vegna er braskað með íslensku krónuna á aflandsmörkuðum eins og á svarta markaðnum austan tjalds fyrr á árum.

Þetta er sá veruleiki sem verið er að vinna úr og enginn ráðherra getur talað upp gengi þess gjaldmiðils sem þannig er ástatt um. (Gripið fram í.) Það sem stendur í vegi fyrir því að vinnum úr gjaldeyrishöftunum er ekki síst óraunhæf bjartsýni um það hversu hratt megi gera það. Hún hefur leitt til þess að eigendur aflandskróna hafa haldið að sér höndum og ónóg þátttaka hefur verið í þeim útboðum sem Seðlabankinn hefur ráðist í til þessa. Þess vegna er nauðsynlegt að talað sé skýrt um þá stöðu sem uppi er þannig að aðilar á markaði horfist í augu við hana og taki virkan þátt í þeim úrræðum sem til boða standa.

Hvað varðar orð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, áðan er rétt að halda því til haga að efnahags- og viðskiptaráðherra Steingrímur J. Sigfússon boðaði til fundar í ráðherranefnd um efnahagsmál á mánudagsmorgni og það er illa komið fyrir samstarfi stjórnmálaflokka á Alþingi ef við köllum til forustu Sjálfstæðisflokksins til þess að ræða við hana ákveðna málsmeðferð og fáum (Forseti hringir.) stuðning hennar við það að afgreiða málið með þeim hætti og að daginn eftir komi síðan formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins með þvílíkum brigslyrðum í garð efnahags- og viðskiptaráðherra (Forseti hringir.) sem það samráð hafði sem raun ber vitni. [Háreysti í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti hyggst ekki gefa orðið um fundarstjórn að þessu sinni. Forseti ætlar að gera fimm mínútna hlé á þessum fundi og biður þingflokksformenn að hitta sig niðri á skrifstofu forseta. Fundinum er frestað í fimm mínútur.)