140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

lyfjaverð.

[14:39]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu um lyfjaverð og harma að hún skuli ekki hafa farið fram fyrr. Þannig er að það er lagt fyrir forsætisnefnd og í samráði við ráðherra hvaða mál skuli tekin á dagskrá á hverjum tíma og oft eru þetta mörg mál sem óskað er eftir að rædd séu í sérstakri umræðu. Einhverra hluta vegna hefur þetta mál orðið út undan og er leitt að vita af því en í sjálfu sér er ekkert of seint að taka þessa umræðu. Þetta er stöðugt viðfangsefni sem þarf að ræða á hverjum tíma, þetta er ekki nýtt viðfangsefni, það er margra ára, þ.e. að reyna að halda lyfjaverði niðri.

Það má byrja á því að svara spurningunni almennt varðandi þá skýrslu sem hér var nefnd og kom frá Ríkisendurskoðun og var afar góð, að bæði fyrir útkomu þeirrar skýrslu og í framhaldinu hefur verið stöðug vinna í gangi til að reyna að sporna gegn hækkun á lyfjakostnaði. En það er ástæða til þess í upphafi að gera mun á því þegar annars vegar er talað um lyfjaverð og hins vegar um lyfjakostnað ríkisins vegna þess að lyfjakostnaður getur auðvitað aukist vegna magnaukningar, þ.e. aukinnar eftirspurnar eftir lyfjum o.s.frv. Lyfjaverð getur breyst með genginu og eins og hér hefur komið fram samkeppnisatriðum, hvort útboð eru nægilega góð o.s.frv. Við höfum verið að glíma við það kannski fyrst og fremst að lyfjakostnaður hefur aukist vegna magnaukningar í ákveðnum lyfjaflokkum. En sjá má í skýrslunni frá Ríkisendurskoðun að tekist hefur að halda lyfjaverðinu niðri, þ.e. það hefur ekki hækkað á undanförnum árum umfram gengisbreytingar, og skýrsla Ríkisendurskoðunar um þróun lyfjaverðs og skýrsla Boston Consulting Group, sem vann með okkur í greiningarvinnu í haust, og tölur Hagstofunnar staðfesta verulegan árangur í lækkun lyfjakostnaðar frá hruni. Í skýrslu Boston Consulting Group kemur fram að frá 2008–2010 varð 14% hækkun á lyfjakostnaði reiknað í íslenskum krónum en 12% lækkun ef þetta var yfirfært í erlendan gjaldmiðil, þ.e. ef við hefðum reiknað þetta út í evrum þar sem megnið af lyfjunum var keypt.

Einnig kemur fram á sömu síðu, bls. 90, í skýrslu Boston Consulting Group að árið 2010 var lyfjakostnaður reiknaður í evrum og án virðisaukaskatts lægri á Íslandi en til dæmis bæði í Danmörku og Svíþjóð. Það hefur því tekist ágætlega að halda aftur af almennum lyfjakostnaði en ekki eins vel hvað varðar sjúkrahúslyfin, svokölluðu S-merktu lyfin sem eru notuð á sjúkrahúsum og sérstökum stofnunum eins og hjúkrunarheimilum. Þau lyf eru endurgjaldslaus fyrir viðkomandi, þ.e. notandinn borgar ekki fyrir þau. En þar hefur gengið ver, þar hafa komið ný lyf, mjög dýr lyf sem hafa verið í boði, og þrátt fyrir að býsna þétt hafi verið haldið um að þau lyf séu ekki veitt og settar nýjar reglur um það þá hefur orðið veruleg aukning á kostnaði þar.

Þessi skýrsla er mjög upplýsandi um marga þætti og þar er ein af tillögum Ríkisendurskoðunar að bæta aðgengi að ódýrum samheitalyfjum. Ef við hefðum sama aðgang að ódýrum samheitalyfjum og til dæmis Færeyingar og Grænlendingar mætti lækka lyfjakostnaðinn verulega en þarna erum við bundin af regluverkinu sem við erum þátttakendur í og ýmsum kröfum, m.a. að þýða þarf mjög ítarlegar upplýsingar með hverju lyfi. Þar kemur einmitt fram að af lyfjum sem eru með markaðsleyfi, það eru 4.400 lyf sem hafa leyfi, eru ekki nema 2.200 á markaðnum. Það er kannski ekki síður áhyggjuefni að þessum aðilum hefur ekki tekist að hafa framboðið nægilega mikið hér og það er hluti af því sem þarf að vinna stöðugt að og í framhaldinu.

Varðandi það að bjóða út á stærri markaði þá var sú heimild veitt af þinginu eins og kom fram hjá hv. málshefjanda, en þar var bætt inn í lögin orðunum „virkri samkeppni“ sem gerði útboðsmöguleikana miklu þrengri en við ætluðum í upphafi og ég held að við ættum að skoða það betur. Það er mjög mikilvægt að við reynum að komast inn í stærri útboð einmitt á Norðurlöndunum eða hjá nágrannaþjóðunum til þess að reyna að ná niður lyfjaverði. Almennt má segja að við höfum verið á réttri leið hvað varðar lyfjaverð til landsins en við eigum þó langt í land.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að þetta er mikið áhyggjuefni og maður hefði viljað sjá peningum ráðstafað í annað en lyfjakostnað, við hefðum þurft að fyrirbyggja það að aukning yrði á ákveðinni lyfjanotkun í stað þess að bæta þar í.

Ég hlakka til að fylgjast með umræðunni og heyra hvað aðrir hafa um málin að segja en það er ljóst að stöðug vinna er í gangi við að reyna að halda þessum kostnaði niðri.