140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

lyfjaverð.

[14:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Ástæðan fyrir því að lyfjaverð er hærra hér en annars staðar er sú að við erum partur af evrópskri haftaverslun með lyf. Þegar við gengum í EES var almenna reglan sú að þegar vara er komin inn í eitt land er hún komin inn í öll. Undantekningin er lyfin. Fara þarf í gegnum sama prósess í hverju einasta landi sem er óheyrilega dýr, sérstaklega fyrir lítið land.

Það er óskiljanlegt af hverju núverandi hæstv. ríkisstjórn nýtti ekki það tækifæri sem var komið upp. Það var sameiginleg stefna allra Norðurlandanna að koma hér með sameiginlegt norrænt heilsusvæði. Það er fullkomlega óskiljanlegt af hverju núverandi hæstv. (Gripið fram í.) ríkisstjórn nýtti sér það ekki því að það var orðið að stefnu í norræna ráðinu og við vorum í forustu þar.

Það er sömuleiðis óskiljanlegt af hverju menn nýta ekki krafta hv. þm. Péturs Blöndals sem var búinn að vinna að því að koma hér á endurgreiðslukerfi og bendir réttilega á að það dugar ekki bara að taka lyfin, það verður að taka alla heilbrigðisþjónustuna.

Það náðist gríðarlegur árangur á sínum tíma þegar við reyndum þó að vinna innan þessa kerfis sem er til staðar núna. Ætli stærsti einstaki þátturinn, sem var lækkað lyfjaverð og við njótum góðs af, hafi ekki verið bannaður á heildsölumarkaði en ég hef ekki tíma til að fara í gegnum alla þá þætti í þessari stuttu ræðu. Mér er hulin ráðgáta af hverju það samstarf sem var búið að leggja upp með og var búið að fá pólitískt samþykki annarra norrænna heilbrigðisráðherra til að fara út í, það er óskiljanlegt af hverju menn hafa ekki fylgt því og klárað það verk, algjörlega óskiljanlegt. Ég get ekki betur séð en að hér sé algjör pólitísk samstaða um að fara þá leið.

Vandinn er sá að við erum lítill markaður, við erum lokuð inni í þessu evrópska haftakerfi. Það eru lausnir, við þurfum að framkvæma þær í samstarfi við aðra. En hér hefur það verið stefna núverandi hæstv. ríkisstjórnar að ef það hefur komið frá sjálfstæðismönnum er því hent út af borðinu, jafnvel þótt þá sé fórnað í þessu tilfelli hagsmunum (Forseti hringir.) sjúklinga.