140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[15:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við hér á þingi höfum oft talað um að það þurfi að breyta vinnubrögðum. Eitt af því sem hefur komið fram á þessu þingi og kannski undanförnum þingum er að þingmannamál hafa komist lengra. Sumpart er það vegna þess að stjórnarfrumvörp hafa ekki borist inn í þingið þannig að það er hreinlega pláss í dagskránni fyrir þingmannamál. Því hefur það líka verið haldið fram í stjórnsýslunni að sumir hafi þá reglu að veita ekki umsagnir um þingmannamál, sem ég held að sé óskynsamlegt og menn þurfi að breyta. Ég held að sú forgangsröðun hafi t.d. verið á hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga eins og hjá mörgum öðrum aðilum. Við þekkjum það öll að mörg þingmannamál hafa ekki fengið umsagnir. Þau geta því farið fram hjá mönnum í tímahraki og annað í þeim dúr.

Varðandi það að sá sem hér stendur hafi verið víðs fjarri þegar 2. umr. fór fram og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hafi verið ein í þinginu vill sá sem hér stendur upplýsa að hann sat innan við tvo metra frá hv. þingmanni og átti ekki hægt um vik að taka þátt í umræðunni þar sem hann stýrði fundi en hlustaði á hvert einasta orð sem fjallað var um í þessu máli. Það vakti einmitt áhuga minn og athygli hversu langt málið væri komið og ég hafði nokkrar efasemdir um hvort búið væri að ganga tryggilega úr skugga um að allir aðilar hefðu fjallað um það. Það er ekki langsóttara en svo.

Ég ítreka og þakka það álit hv. þingmanns að það sé bæði réttur og skylda hvers þingmanns að taka mál til umfjöllunar sem hann telur nauðsynlegt að sinna og í þessu tilviki var það réttur minn og skylda að gera það.