140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili ekki áhyggjum hv. þm. Birgis Ármannssonar af því að það sé mjög erfitt að eiga núna loksins að setjast niður við að skilgreina hvað geti talist hættuleg frávik eða skaðleg sem gefi tilefni til þess að upplýsa um yfirvofandi vá. Einhvers staðar verðum við að byrja og ég held að það sé mun hættulegra að skilgreina hugtökin ekki og þurfa síðan kannski að taka afleiðingunum fyrir heilsu og líf fólks.

Nú þegar fer fram gríðarlega mikil upplýsingaöflun hjá stjórnsýslunni, m.a. umhverfisyfirvöldum og allmikið efni er birt á netinu nú þegar. Eins og ég hef sagt áður er ekki gert ráð fyrir því að stjórnvöldum sé skylt að leita nýrra upplýsinga á nokkru stigi máls, ekki nema þau sjálf sjái ástæðu til, heldur einungis að þau geri opinskátt um þær upplýsingar sem þau hafa, þegar ástæða er til.

Ég held því að hv. þingmaður þurfi ekki að óttast svo mjög hvað þetta hafi í för með sér. Þetta er bara spurning um að segja frá því sem maður veit á grundvelli upplýsinga sem maður hefur fyrir. Það er sjálfsagt og ekki til mikils ætlast finnst mér fyrir almannaheill í þessu landi, sérstaklega ekki í ljósi þeirra alvarlegu mála sem hafa komið upp, hvort sem það hafa verið díoxínmengunarmál, kadmíummengunarmál eða iðnaðarsalt í matvælum. Í öllum þeim tilvikum hefur almenningur rekið sig á sömu fyrirstöðuna, að stjórnvöld og opinberir eftirlitsaðilar hafa ekki talið sér skylt að segja frá því sem þau vita.