140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[15:41]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál er því miður vanbúið. Það er vanbúið vegna þess að það er óklárt og allt of margt laust í því sem þarf að vera klárt.

Hv. framsögumaður sagði til að mynda að ekki væri mikið kvíðaefni að skilgreina nú túlkun á lögunum. Það er skynsamlegra að skilgreina áður en ekki eftir á. Það er grundvallaratriði þegar kemur að þáttum sem valda tvímælalaust kostnaðarauka hjá þeim sem málið snertir, sveitarfélögum landsins. Það á auðvitað að vera klárt í hvaða pytt menn eru að fara út í og ég segi pytt vegna þess að þegar allt er óklárt eins og í þessu máli er óvissan allt of mikil. Þetta á ekki að vera óvissuferð, við erum að fjalla um náttúru Íslands og fulla virðingu sem á að bera fyrir henni en við þurfum líka að bera virðingu fyrir því að þeir sem eiga að framkvæma það sem sett er fyrir viti hvað það kosti og það fari ekki allt úr böndum.

Það er mikill munur á því, virðulegi forseti, hvort um er að ræða skynsemi eða skaðræði og því miður eru faldar hættur í þessu frumvarpi sem geta valdið miklum kostnaði, vandamálum og ágreiningi því að allt sem varðar náttúru landsins er viðkvæmt og getur kallað á alls kyns uppákomur, móðursýkisköst og fleira ef ekki er klárt um hvað málið snýst, kvitt og klárt. Það er engin spurning að þetta er kostnaðarauki fyrir sveitarfélögin, og viðfangsefnin eru að því leytinu óljós um leið. Þess vegna þarf að kryfja þetta mál betur til mergjar með Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem á síðan að framkvæma lögin sem um margt hafa, eins og hér hefur komið fram, merkilegt og jákvætt markmið. Um það er ekki ágreiningur heldur er það svo að þetta hefur ekki alltaf verið skynsamlegt og því miður hefur kannski ekki alltaf verið hægt að segja (Forseti hringir.) að stjórnsýsla hv. framsögumanns sé á sjó setjandi. (ÓÞ: Forseti, ég geri athugasemd.)