140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við erum alveg sammála um það, ég og hv. þingmaður, að vandinn er í sjálfu sér margþættur. Hann einskorðast ekki við upplýsingagjöfina. Það er margþættur vandi inni í eftirlitskerfinu og stjórnsýslukerfinu. Það verður að viðurkennast að stjórnsýslulögin til dæmis valda ákveðnum vanda vegna þess að þau eiga að tryggja réttindi þeirra sem athugasemdir beinast að o.s.frv., tímafresti við beitingu þvingunarúrræða, andmælarétt, rannsóknarskyldu og allt það, sem getur gert viðbragðið erfiðara og seinkar bæði viðbragðinu og frumkvæðisgetunni hjá stjórnvöldum. Þess vegna var það niðurstaðan í samráði við ýmsa lögfræðinga sem við var rætt að fyrsta skrefið væri í raun það að gera þá breytingu sem verið er að gera núna, að skilgreina í þessum sérlögum réttarstöðu almennings gagnvart því þegar vá eða hætta er yfirvofandi og segja hreint út að stjórnvöld hafi þessa frumkvæðisskyldu, því að sú skylda er ekki skilgreind annars staðar í lögum.

Í raun og veru held ég að við hv. þingmaður séum ekkert svo ósammála. Þetta er kannski bitamunur en ekki fjár. Ég vona alla vega að þegar menn hugsa málið betur átti þeir sig á því að þær breytingar sem hér eru lagðar til eru ekki aðeins lagðar til af góðum hug heldur líka af talsverðri hugsun. Sú hugsun kemur ekki bara úr höfði þess þingmanns sem hér stendur heldur er hér um samanlagða þekkingu allnokkurra aðila að ræða.