140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

skipulagslög.

105. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010, og geri það í forföllum hv. þingmanna Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, formanns nefndarinnar, og Marðar Árnasonar sem raunar er framsögumaður málsins.

Eins og fram kemur í nefndaráliti hefur nefndin fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Thors skipulagsstjóra og Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur, skipulagsfræðing og aðjúnkt í Háskólanum í Reykjavík, en þetta frumvarp var áður lagt fram á síðasta löggjafarþingi, á þskj.122, en hlaut ekki afgreiðslu þá. Nefndin ákvað að kalla ekki eftir umsögnum um málið nú þar sem svo skammt er liðið frá átektum þess í nefndinni en hefur hins vegar kynnt sér þær umsagnir sem lágu fyrir.

Í frumvarpinu er lagt til að skerpt verði á regluverki stjórnsýslunnar í því skyni að tryggja vandaðri vinnubrögð. Í fyrsta lagi er lagt til að sveitarstjórn geti einhliða ákveðið að aðalskipulag sveitarfélagsins taki gildi ef Skipulagsstofnun afgreiðir ekki aðalskipulagstillögu innan lögformlegs frests. Í öðru lagi er lagt til að sendi stofnunin tillöguna til ráðherra vegna þess að hún telji að synja eða fresta skuli staðfestingu verði ráðherra settur lögformlegur frestur til þess að afgreiða tillögu Skipulagsstofnunar. Hafi ráðherra ekki tekið ákvörðun innan þess frests geti sveitarstjórn einhliða ákveðið að aðalskipulagið taki gildi þar til ákvörðun liggur fyrir. Í þeim tilfellum þegar farið er fram úr lögbundnum fresti og sveitarstjórn ákveður að aðalskipulag taki gildi er gert ráð fyrir að sveitarstjórn auglýsi það í B-deild Stjórnartíðinda. Lagt er til að lögin taki þegar gildi og eigi við um öll aðalskipulög sem send eru Skipulagsstofnun til afgreiðslu.

Nefndin telur óráðlegt að breyta skipulagslögum þannig að sveitarstjórn geti staðfest aðalskipulag tímabundið ef það hefur ekki fengið afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun eða ráðherra að liðnum tilteknum fresti. Með því væri vikið frá þeirri meginreglu í stjórnkerfi skipulagsmála hérlendis að ráðherra skipulagsmála og sérstök ríkisstofnun hafi staðfestingarvaldið, tryggi að skipulagstillögur séu í samræmi við lög, gæti jafnvægis milli einstakra skipulagstillagna og gangist fyrir málamiðlun ef þörf er á og ólík sjónarmið eru uppi við skipulagsákvarðanir. Þá er hætta á því að slík ákvæði sköpuðu réttaróvissu fyrir íbúa og fyrirtæki á þeim tíma sem liði frá gildistöku samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar til gildistöku samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar eða ráðherra.

Nefndin bendir á að nýlegar breytingar á lögum um skipulagsmál, nr. 123/2010, ættu að tryggja skilvirkari afgreiðslu skipulagstillagna en áður var, þar sem það er nú hlutverk Skipulagsstofnunar að staðfesta aðalskipulagstillögur nema í sérstökum undantekningartilvikum þegar þær eru sendar til ráðherra.

Stjórnvöldum ber að sjálfsögðu að reyna sem verða má að standa við þann frest sem þeim er gefinn til umfjöllunar tillagna í skipulagslögum. Á hinn bóginn hafa þau einnig ríka rannsóknarskyldu, og þegar þetta tvennt rekst á er eðlilegt að stjórnvöld líti til markmiðskafla laganna og einbeiti sér að gæðastarfi í þágu almennings og atvinnulífs þótt það kunni að taka lengri tíma en tiltekinn er í ákvæðum um tímafrestina. Í slíkum undantekningartilvikum hljóta stjórnvöld hins vegar að kynna stöðu málsins fyrir sveitarstjórn og láta vita um áætluð starfslok við umfjöllunina.

Nefndin hefur kynnt sér þau tilvik þar sem umfjöllun Skipulagsstofnunar fór fram úr tilskildum fresti árin 2008–2010, eins og sjá má í lista sem fylgir umsögn Skipulagsstofnunar um 113. mál á 139. þingi, og telur að skýringar stofnunarinnar séu eðlilegar. Nefndin mælir að þessu samanlögðu ekki með því að þessi hluti frumvarpsins verði að lögum.

Nefndin telur hins vegar eðlilegt að í þeim sérstöku tilvikum sem um er fjallað í 4. mgr. 32. gr. gildandi laga, þegar Skipulagsstofnun sendir ráðherra skipulagstillögu með tilmælum um að hafna henni í heild eða að hluta, sé ráðherra settur ákveðinn tímafrestur til að taka ákvörðun. Þykir nefndinni þó rétt að hafa frestinn rýmri en lagt er til í frumvarpinu og þykja sex vikur hæfilegur frestur í því ljósi að hér er allajafna um erfið og viðkvæm mál að ræða. Ef vinna við málið tekur lengri tíma en fresturinn segir til um ber ráðherra að tilkynna það viðkomandi sveitarstjórn og gera grein fyrir ætluðum ákvörðunardegi.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem kynntar eru í framhaldi af nefndaráliti á þskj. 918.

Undir þetta rita hv. þingmenn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður, Mörður Árnason, framsögumaður, Ólína Þorvarðardóttir, sem hér stendur, Þuríður Backman, Atli Gíslason og Árni Johnsen.