140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta velferðarnefndar á þskj. 948 um frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn. Ég vil geta þess sem hæstv. forseti nefndi einnig að það eru þrír minni hlutar í þessu máli. Það gefur hins vegar ekki rétta mynd af þeim umræðum sem urðu í nefndinni. Ástæðan er einfaldlega sú að fjarverandi voru við afgreiðslu málsins hv. þm. Kristján L. Möller, Eygló Harðardóttir og Guðmundur Steingrímsson. Undir þetta nefndarálit sem ég mæli hér fyrir fyrir hönd 1. minni hluta skrifa auk mín Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lúðvík Geirsson og Valgerður Bjarnadóttir. Hin minnihlutaálitin tvö koma annars vegar frá hv. þingmönnum Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Unni Brá Konráðsdóttur og hins vegar frá hv. þm. Eygló Harðardóttur. Þar er að finna meiningarmun sem snertir í reynd þrjár greinar þessa stóra frumvarps. Að öðru leyti held ég að mér sé óhætt að segja að mikil og góð samstaða hafi verið í nefndinni við vinnslu málsins og vil ég þakka hv. nefndarmönnum fyrir gott samstarf. Ég vil þó ekki ljúka þessum inngangi öðruvísi en svo að nefna að ég geri tillögu um að málið gangi aftur til velferðarnefndar á milli 2. og 3. umr.

Herra forseti. Ég ætla að gera grein fyrir nefndaráliti 1. minni hluta þar sem rakið er í inngangi að tíu gestir komu fyrir nefndina og 14 umsagnir bárust, auk þess sem nefndin fór yfir umsagnir sem bárust á síðasta þingi.

Þetta mál, heildstæð löggjöf um heilbrigðisstarfsmenn, hefur verið í vinnslu nokkuð lengi. Þetta er í þriðja sinn sem frumvarp þess efnis er lagt fyrir Alþingi. Nú er frumvarpið lítið breytt frá síðasta þingi, 139. þingi, en það var fyrst lagt fram á 138. þingi.

Efni frumvarpsins má í stórum dráttum lýsa með því að nú eru löggiltar heilbrigðisstéttir í landinu 33 talsins. Um 14 þeirra gilda sérlög. Með þessu frumvarpi er lögð til heildstæð rammalöggjöf um alla heilbrigðisstarfsmenn og hefur löggjöfin það að markmiði að tryggja betur gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshætti þeirra. Frumvarpið byggist að stofni til á ákvæðum læknalaga nr. 53/1988, auk þess sem hliðsjón var höfð af sambærilegum norskum lögum, en lagt er til að þessi heildarlöggjöf komi í stað þeirra 14 sérlaga sem ég nefndi áðan.

Nefndin kallaði eftir því hvernig háttað væri lagasetningu um heilbrigðisstarfsmenn í nágrannalöndunum og óskaði meðal annars eftir úttekt velferðarráðuneytis á því hvernig löggjöf væri hagað í löndum Evrópu. Svör bárust frá 20 löndum og af þeim voru tíu lönd með ein lög fyrir allar heilbrigðisstéttir. Það á við um Danmörku, Noreg, Svíþjóð og Finnland, sem eru þau lönd sem við berum okkur gjarnan saman við.

Fram kom fyrir nefndinni að við lögfestingu heildarrammalöggjafar um heilbrigðisstarfsmenn á Norðurlöndum hefðu komið fram sjónarmið sem hér hafa verið nefnd um að kannski sé ekki gott að hafa eina heildarlöggjöf um allar þessar stéttir og að skipta ætti þeim upp í tvo hópa, annars vegar þeim sem bera beina ábyrgð á sjúklingum, en hins vegar þá sem ekki bera beina ábyrgð á sjúklingum. Fram kom fyrir nefndinni að svipuð sjónarmið hefðu komið fram á Norðurlöndunum við lögfestingu rammalöggjafar, en lítið hafi borið á gagnrýni eftir gildistöku löggjafarinnar.

Fyrsti minni hluti áréttar að þeim markmiðum sem ég áðan rakti um að tryggja betur gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga verður ekki náð nema sett sé ein heildarlöggjöf um heilbrigðisstarfsmenn.

Kallað hefur verið eftir löggildingu nýrra heilbrigðisstétta í tengslum við fyrirliggjandi frumvarp, enda er í 3. gr. frumvarpsins að finna upptalningu löggiltra heilbrigðisstétta sem eru nokkru fleiri hér á landi en í nágrannalöndunum.

Fyrsti minni hluti bendir á að í 2. mgr. 3. gr. er ráðherra gefin heimild til að löggilda aðrar heilbrigðisstéttir eða nýjar heilbrigðisstéttir með reglugerð, en í frumvarpi sem lagt var fram á 138. þingi var gert ráð fyrir atbeina Alþingis til að löggilda nýjar heilbrigðisstéttir. Því var breytt við framlagningu málsins á síðasta þingi, 139., en síðan hefur þó sú breyting verið gerð á að ekki er lengur lagt til að við ákvörðun um löggildingu nýrra heilbrigðisstétta skuli gæta samræmis við önnur ríki.

Forseti. Mætti ég biðja um að fá smá þögn hér í hliðarsölum? (Forseti hringir.)

(Forseti (SIJ): Forseti vill biðja þingmenn í hliðarsölum að hafa heldur lægra svo að ræðumaður fái næði til að halda ræðu sína.)

Takk fyrir það, herra forseti. Í 10. gr. er fjallað um að þeim sem ekki hafa fengið leyfi landlæknis sé óheimilt að nota löggilt starfsheiti eða starfa sem heilbrigðisstarfsmaður. Það var nokkuð gagnrýnt að ákvæði 5. kafla læknalaga, um skottulækningar, skyldi ekki vera fært óbreytt í frumvarpið og að ákvæði þessarar greinar væri ekki efnislega hið sama og ákvæði læknalaga um skottulækningar. Nefndinni var tjáð að ekki væri unnt að nota sama hugtak, þ.e. um skottulækningar, enda ætti ákvæðið við um fleiri heilbrigðisstéttir en lækna. 1. minni hluti áréttar að hér er ekki um að ræða efnislega breytingu utan þeirrar að ákvæðið á við fleiri stéttir en lækna.

Herra forseti. Ég er komin að því að kynna fyrstu breytingartillögu af fjórum sem 1. minni hluti leggur fram, en það er smávægileg orðalagsbreytingu á 1. mgr. 10. gr. til að fyrirbyggja misskilning hafi heilbrigðisstarfsmaður verið sviptur leyfi sínu. Þetta er einföld orðalagsbreyting til áréttingar á meiningu ákvæðisins.

Í 11. gr. frumvarpsins er kveðið á um tímabundið starfsleyfi sem heimilt er að veita þeim sem lokið hafa fjórða árs námi í læknisfræði til að sinna tilgreindum læknisstörfum. Þetta var nokkuð rætt og komu nokkrar athugasemdir fram við ákvæðið, en 1. minni hluti telur að þó að ákjósanlegt hefði verið að fella með öllu brott ákvæðið um tímabundin starfsleyfi eru aðstæður þó víða með þeim hætti að nauðsynlegt er að hafa ákvæði um tímabundið starfsleyfi í lögum til að tryggja nægilega þjónustu. 1. minni hluti telur mikilvægt að tímabundin starfsleyfi til þeirra sem ekki hafa lokið tilskildu námi séu einungis gefin út í undantekningartilvikum og þegar brýn nauðsyn krefur vegna þess að ekki sé völ á heilbrigðisstarfsmanni sem lokið hefur námi til að veita nauðsynlega þjónustu. 1. minni hluti telur hins vegar ekki tilefni til þess að fjölga þeim starfsstéttum sem falla undir ákvæðið. Vegna ábendinga um að tímabundið starfsleyfi lyfjafræðinga er að finna í lögum þar um, bendir 1. minni hluti á að heildarendurskoðun lyfjalaga er væntanleg og telur rétt að þetta atriði verði skoðað við þá vinnu.

Þá er komið að annarri breytingartillögu sem 1. minni hluti flytur, en við vinnu nefndarinnar og umræður um tímabundin starfsleyfi var bent á að íslenskir læknar sækja nú menntun sína til útlanda og nám er ekki alls staðar skipulegt með sambærilegum hætti og hér á landi. Við gerð frumvarpsins var miðað við nám við Háskóla Íslands og til að tryggja að viðkomandi læknanemi hafi til að bera nauðsynlega þekkingu og færni leggur 1. minni hluti til breytingu á ákvæðinu þess efnis að viðkomandi þurfi að hafa lokið fjórða árs námi í læknisfræði við Háskóla Íslands og síðan kemur viðbótin: eða sambærilegu námi erlendis.

Þá er ég, herra forseti, komin að 13. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um faglegar kröfur og ábyrgð. Þar leggur 1. minni hluti til breytingu sem er þriðja tillagan sem er að finna á sama þskj. 949.

Í þeirri grein er kveðið á um að ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna á greiningu og meðferð sjúklinga sem til þeirra leita svo og um að heilbrigðisstarfsmaður skuli virða faglegar takmarkanir sínar og leita eftir aðstoð eða vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns eftir því sem nauðsynlegt og mögulegt er. Í 1. málslið 3. mgr. er þó jafnframt kveðið sérstaklega á um ábyrgð lækna á læknisfræðilegri meðferð og greiningu sjúklinga. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að í ljósi sérákvæðis um ábyrgð lækna væri rétt að kveða á um ábyrgð hjúkrunarfræðinga á hjúkrun einstaklinga. Nefndin óskaði upplýsinga frá velferðarráðuneyti um sambærileg ákvæði laga á Norðurlöndum og fékk þær upplýsingar að í norskum lögum um heilbrigðisstarfsmenn væru engin sérákvæði um ábyrgð lækna. Hið sama á við um dönsk lög um heilbrigðisþjónustu sem og sænsk lög um heilbrigðisstarfsmenn. Þar er ekki sérstaklega kveðið á um ábyrgð lækna í þessum efnum. 1. minni hluti áréttar að í orðalagi 3. og 4. mgr. felst nú þegar þessi afmörkun á ábyrgð og starfssviði allra heilbrigðisstarfsmanna, þar á meðal lækna og hjúkrunarfræðinga. 1. minni hluti telur því rétt að fella brott sérákvæði um lækna, og það er breytingartillagan, hæstv. forseti, enda beri allir heilbrigðisstarfsmenn ábyrgð á greiningu og meðferð þeirra sjúklinga sem til þeirra leita og með því er á engan hátt dregið úr lagalegri og faglegri ábyrgð lækna né óvissa sköpuð um þá ábyrgð.

Þetta er það atriði sem ágreiningur er gerður um og hv. þingmenn sem bera fram álit 2. minni hluta nefndarinnar munu væntanlega gera betur grein fyrir hér á eftir.

Í kjölfar brjóstapúðamálsins svokallaða varð í nefndinni mikil umræða um hvernig sporna mætti við hagsmunaárekstrum heilbrigðisstarfsmanna vegna annarrar starfsemi og vísað til þess að í eldri lögum um lyfjadreifingu sem eru frá 1982 var starfandi læknum, tannlæknum og dýralæknum bannað með öllu að vera eigendur, hluthafar eða starfsmenn lyfjabúða. Í núgildandi lögum frá 1994 er kveðið á um að starfandi læknar, tannlæknar og dýralæknar, megi ekki vera eigendur að svo stórum hluta í lyfsölu, lyfjaframleiðslu eða lyfjaheildsölu, að það hafi teljandi áhrif á fjárhagslega afkomu þeirra og sama gildi um maka þeirra, svo og börn undir 18 ára aldri.

Í nefndinni var rætt að sambærilegt ákvæði væri ekki að finna í lögum um lækningatæki nr. 16/2001, og heldur ekki í því frumvarpi sem við hér ræðum um heilbrigðisstarfsmenn. En við bendum á að sömu sjónarmið liggja að baki því að banna heilbrigðisstarfsmönnum og tengdum aðilum að vera eigendur að svo stórum hlut í starfsemi sem flytur inn, framleiðir og selur lækningatæki, þar á meðal íhluti eða ígrædd lækningatæki eða lækningavöru að það hafi teljandi áhrif á fjárhagslega afkomu þeirra, og eru að baki framangreindu ákvæði lyfjalaga.

Rík hætta er á hagsmunaárekstrum vegna starfanna sem mikilvægt er að koma í veg fyrir. Sjúklingar geta oft ekki sannreynt þær upplýsingar sem heilbrigðisstarfsmenn veita, til dæmis á mjög sérhæfðu sviði, og hljóta því að leggja allt sitt traust á viðkomandi heilbrigðisstarfsmann. Nauðsynlegt er að tryggja öryggi sjúklinga og þjónustu við þá, en hafi heilbrigðisstarfsmaður beina hagsmuni af því að selja sjúklingi lækningatæki eða lyf, er þessu öryggi stefnt í hættu eða má að minnsta kosti draga í efa að það sé til staðar. Slíkur efi er til þess fallinn að draga úr trausti á heilbrigðisstarfsmönnum.

Eins og ég sagði fór mikil umræða fram í nefndinni um þetta atriði. Meðal annars var ræddur sá möguleiki að leggja til breytingu á fyrirliggjandi frumvarpi þess efnis í samræmi við lyfjalögin að heilbrigðisstarfsmaður sem starfar við heilbrigðisþjónustu mætti ekki vera eigandi að svo stórum hlut í fyrirtæki sem framleiðir, flytur inn og selur lækningatæki eða lyf á sínu starfssviði, að það hefði teljandi áhrif á fjárhagslega afkomu hans. Fyrir nefndinni var jafnframt rætt að ná mætti sama árangri með því að skylda heilbrigðisstarfsmenn til að skrá tengsl sín og eigur í fyrirtækjum í þessum geira og að slík skrá yrði gerð aðgengileg sjúklingum.

Fyrsti minni hluti telur ljóst að þær leiðir sem hér eru nefndar þurfi nokkurrar skoðunar og umræðu við auk þess sem ekki liggi ljóst fyrir að ákvæði af þessu tagi eigi heima í heildarlöggjöf um heilbrigðisstarfsmenn. Nefndinni hefur verið tjáð að nú standi yfir endurskoðun laga um lækningatæki og beinir 1. minni hluti því til ráðuneytisins að skoða vandlega í tengslum við þá endurskoðun setningu reglna sem koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af því tagi sem lýst er hér að framan.

Niðurstaðan af umræðum nefndarinnar og sem við í 1. minni hluta gerum hér að okkar er því eins konar hvatning til ráðuneytisins, en þess ber að geta að hv. þm. Eygló Harðardóttir, sem hefur lagt hér fram álit 3. minni hluta, gerir tillögu um sérstaka hagsmunaskráningu í þessum dúr. Sú tillaga hefur þó ekki fengið umfjöllun í nefndinni.

Gerðar voru athugasemdir og við fengum nokkrar ábendingar um ákvæði frumvarpsins um undanþágu frá starfsskyldu og um áfengi og vímuefni. Fjallað var um þær athugasemdir en ekki þótti tilefni til breytinga.

Herra forseti. Mikil umræða fór fram í nefndinni um trúnað, þagnarskyldu, eftirlit landlæknis og upplýsingagjöf til landlæknis. Því er ekki að neita að kveikjan að þeim umræðum var fyrst og fremst sú sama og ég nefndi áðan eða mikil umræða í samfélaginu um brjóstapúðamálið svokallaða. Bent var á í fyrsta lagi að ákvæði 17. gr. frumvarpsins um trúnað og þagnarskyldu væri ekki nægilega skýr og betra væri að notast við gildandi ákvæði læknalaga, en 1. minni hluti bendir á að ekki er um að ræða efnisbreytingu frá þeirri grein, enda er almennt vísað til þeirrar greinar í öðrum sérlögum um heilbrigðisstarfsmenn. Við teljum ákvæðið skýrt og að það ætti ekki að valda neinum vandkvæðum í framkvæmd.

Fyrsti minni hluti telur brýnt að árétta, og þá er ég kannski komin að umræðunni um brjóstapúðamálið, að landlæknir skal samkvæmt 7. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, hafa reglubundið eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Samkvæmt greininni ber heilbrigðisstarfsmönnum, heilbrigðisstofnunum og öðrum sem veita heilbrigðisþjónustu að veita landlækni þær upplýsingar og þau gögn sem landlæknir krefst og hann telur nauðsynleg til að sinna eftirlitshlutverki sínu.

Í nefndaráliti 1. minni hluta er vísað til þess að nokkuð hefur borið á því að læknar beiti fyrir sig persónuverndarsjónarmiðum og telji sig af þeim sökum ekki geta veitt landlækni umbeðnar upplýsingar. 1. minni hluti bendir á að heimild landlæknis til að krefjast upplýsinga er skýr í lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, og ákvæði um eftirlit landlæknis með læknum er jafnframt að finna í 18. gr. læknalaga. Því ákvæði var breytt með lögum nr. 41/2007, vegna tilvísunar í lög um landlækni. Áður var þó í læknalögum skýr heimild um eftirlit landlæknis og heimild hans til að heimta skýrslur af lækni viðvíkjandi störfum hans. Í reynd hafa alltaf verið í læknalögum ákvæði um eftirlit landlæknis með læknum.

Í nefndaráliti 1. minni hluta er í þessu sambandi vísað til laga nr. 80/1969, til laga nr. 47/1932, og til laga nr. 38/1911, um lækningaleyfi. Í öllum þessum lögum allt frá 1911 hefur verið kveðið á um heimild landlæknis til þess að heimta skýrslur af læknum. 1. minni hluti áréttar að nauðsynlegt er að landlæknir fái þau gögn sem til þarf svo hann geti sinnt eftirlitshlutverki sínu, enda liggi undir brýnir almannahagsmunir.

Vegna þeirrar umræðu sem ég hef vísað til sem hefur orðið vegna brjóstapúðamálsins svonefnda, meðal annars um heimild eða ekki heimild lækna til að neita að bregðast við tilmælum landlæknis og veita honum upplýsingar, telur 1. minni hluti vert að árétta að á þessari heimild landlæknis eru engar undantekningar — engar. Læknar hafa veitt viðeigandi upplýsingar til yfirvalda þegar um er að ræða læknisverk og heilbrigðisþjónustu með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og geta ekki borið fyrir sig persónuverndarsjónarmið þegar kemur að upplýsingum um þjónustu og læknisverk sem ekki eru með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga.

Fyrir nefndinni var upplýst að fyllsta trúnaðar væri gætt um allar þær upplýsingar sem landlæknir fær til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Þær eru dulkóðaðar. Til að tryggja að landlæknir geti sinnt eftirlitshlutverki sínu er ljóst að það verður ekki gert nema heilbrigðisstarfsmenn afhendi landlækni þau gögn sem hann krefst hverju sinni.

Nú er það svo, hæstv. forseti, að enn er beðið úrskurðar Persónuverndar vegna kæru Læknafélags Íslands sem tók upp á því að styðja ákvörðun lýtalækna og Félags íslenskra lýtalækna sem neituðu að afhenda landlækni umbeðnar upplýsingar vegna frönsku PIP-púðanna. Áætlað var að úrskurðurinn lægi fyrir eftir fyrstu viku febrúar, en nú er komið fram í miðjan mars og enn bólar ekki á úrskurðinum. Vegna þessarar biðar hefur nokkuð tafist að nefndin afgreiddi málið til 2. umr. og það er einnig ástæðan fyrir því að við köllum málið inn til okkar á milli 2. og 3. umr., því að við viljum sjá hvað Persónuvernd gerir í þessum efnum.

Herra forseti. Ég er alveg að fara að ljúka máli mínu. Ég vil vekja athygli á ákvæði um auglýsingar og kynningar þar sem eru gerðar breytingar frá því sem verið hefur. Læknalög hafa ekki heimilað auglýsingar lækna nema með efnislegum og látlausum auglýsingum þegar læknir hefur störf eða breyting verður á aðsetri eða viðtalstíma, en slík ákvæði er ekki að finna í löggjöf annarra Norðurlanda. Í 24. gr. frumvarpsins er gerð breyting á þessu og lagt til að leyfilegt verði að kynna og auglýsa heilbrigðisþjónustu, en ávallt skuli gæta málefnalegra sjónarmiða og fyllstu ábyrgðar, nákvæmni og sanngirni. Þetta ákvæði er sambærilegt við ákvæði norskra laga um heilbrigðisstarfsmenn. Þar er þó jafnframt áskilnaður um að ráðherra skuli setja nánari ákvæði í reglugerð og þar með er gengið nokkuð lengra en í Noregi þar sem ekki er um að ræða skyldu til að setja reglugerð, heldur eingöngu heimild. Þar í landi hefur slík reglugerð aðeins verið sett til þess að setja reglur um auglýsingar á lýtaaðgerðum.

Fyrsti minni hluti telur jákvætt að horfið sé frá því nær algera banni við auglýsingum á heilbrigðisþjónustu sem verið hefur, en telur jafnframt mikilvægt að settar verði skýrar reglur viðmið og rammi í reglugerð um það hvernig má haga auglýsingum í heilbrigðisþjónustu. Við vekjum athygli á því og teljum rétt að í reglugerð verði sett ákvæði er banni auglýsingar á heilbrigðisþjónustu í sjónvarpi, kvikmyndum og í myndböndum, en sambærilegt ákvæði er að finna í dönskum lögum um markaðssetningu á heilbrigðisþjónustu. Telur 1. minni hluti mikilvægt að þau lög verði höfð til hliðsjónar við setningu reglugerðar í þessum efnum.

Nokkur umræða varð um aldursmörk. Í 26. gr. frumvarpsins er lagt til að heilbrigðisstarfsmanni verði óheimilt að reka eigin starfsstofu eftir 70 ára aldur sem er til samræmis við þær reglur sem gilda almennt um starfslok opinberra starfsmanna. Fyrsti minni hluti áréttar að viðkomandi má áfram starfa sem heilbrigðisstarfsmaður og sæki viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður um það er landlækni heimilt samkvæmt frumvarpinu að framlengja leyfi til þess að reka eigin starfsstofu til tveggja ára í senn, þó aldrei oftar en þrisvar. Þetta þýðir að heilbrigðisstarfsmaður getur því ekki rekið eigin starfsstofu eftir 76 ára aldur.

Vegna ákvæðis lyfjalaga um lyfsöluleyfi sem fellur niður í lok þess árs sem leyfishafi verður 70 ára, beinir 1. minni hluti þeim tilmælum til velferðarráðuneytis að litið sé til lagasamræmis við endurskoðun lyfjalaga og tryggt að samræmis sé gætt eins og unnt er í reglum sem gilda um alla heilbrigðisstarfsmenn.

Fjallað var um brot á ákvæðum laganna. Við fengum athugasemdir við það, en töldum ekki ástæðu til þess að gera þar breytingu á.

Varðandi gildistöku vill 1. minni hluti leggja áherslu á að tíminn fram til þess að lögin taka gildi 1. janúar 2013, en það er 2/3 hluti ársins, verði notaður vel vegna þess að setja þarf 33 nýjar reglugerðir samhliða því að lögin taka gildi.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þremur af þeim fjórum tillögum sem 1. minni hluti flytur, en fjórða tillagan er einföld leiðrétting þar sem gleymst hafði að fella brott eina tilvísun í læknalög sem var að finna í b-lið 27. gr.

Herra forseti. Ég hef lokið að gera grein fyrir nefndaráliti 1. minni hluta. Ég ítreka þakkir mínar fyrir mjög gott starf og mikla samstöðu í nefndinni, og enda þótt við komum fram í þremur hópum gefur það alls ekki rétta mynd af þeirri vinnu sem fram fór. Ég ítreka að lokum að málið gangi aftur til hv. velferðarnefndar á milli 2. og 3. umr.