140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir hennar yfirferð. Það er augljóst að mikið hefur verið unnið í nefndinni og ég treysti því og trúi að menn hafi farið yfir alla helstu þætti þessa máls, sem er í eðli sínu gott, og litið heildstætt á þetta, til þess var leikurinn gerður. Eitthvað þykist ég nú kannast við þetta frumvarp. Eftir því sem ég best veit er þetta byggt á frumvarpi sem ég talaði fyrir á sínum tíma og mikil vinna var lögð í, þannig að ófáar vinnustundirnar hafa farið í þetta allt saman. Betur sjá augu en auga, og það er vel.

Það skiptir afskaplega miklu máli að við séum hér að hugsa til lengri tíma. Þetta er löggjöf sem á að standa lengi og þrátt fyrir að einhver mál séu áberandi í umræðunni núna verðum við fyrst og fremst að horfa á það með þeim gleraugum að þetta eigi að standa til lengri tíma og eigi að bæta heilbrigðisþjónustuna, þá fyrst og fremst með hagsmuni sjúklinga í fyrirrúmi. Ég veit að hv. þingmaður er sammála mér um þau markmið.

Það vekur athygli mína að búið er að taka það út úr frumvarpinu að læknir beri ábyrgð á læknisfræðilegri greiningu og meðferð sjúklinga. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á því af hverju þetta er gert. Það er afskaplega mikilvægt, og allir þeir sem leita sér lækninga þekkja það, að það sé skilgreint hver ber ábyrgð. Læknisfræðileg greining verður aldrei framkvæmd af öðrum en lækni, þess vegna heitir hún læknisfræðileg greining, þó svo að þær frábæru heilbrigðisstéttir sem við eigum sinni mörgum málum.

Ég vildi því fá að vita röksemdirnar fyrir því að þetta var tekið út úr frumvarpinu.