140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ef ekki er ágreiningur um að læknar eigi að sjá um læknisfræðilega greiningu og meðferð sjúklinga sem til hans leita, held ég að væri langskýrast að hafa það í lögunum. Í gær töluðum við fram á nótt um það að gæta skyldi varúðarsjónarmiða. Þá var verið að vísa í gjaldeyrismál en það á svo sannarlega við um heilbrigðisþjónustu. Það hefur ekki farið fram hjá hv. þingmanni að menn hafa af þessu áhyggjur. Ef allir eru sammála um markmiðið mundi maður ætla að það væri skynsamlegast og hreinlegast að taka af allan vafa um það.

Þó svo að við höfum mjög góða heilbrigðisþjónustu og flestar aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við, eru samt sem áður ýmsar brotalamir eins og í öðru í mannheimum og afskaplega mikilvægt að ábyrgðarhlutverk hvers og eins sé skýrt. Þá ekki síst í þessu tilfelli því að hér er hvorki um meira né minna að ræða en heilbrigðisþjónustuna.

Ef menn eru sammála um það í heilbrigðisnefnd að læknar eigi að sjá um læknisfræðilega greiningu mundi maður ætla að það ætti að geta náðst góð samstaða um að það stæði í lagatextanum. Ef menn telja hins vegar að einhver annar eigi að sjá um læknisfræðilega greiningu getur verið að uppi sé ágreiningur, en ef menn eru sammála um það ætti nú að vera skýrt að hafa þetta þarna inni.