140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil árétta að spurningin um það hvort þetta sérákvæði 1. málsliðar 3. mgr. 13. gr. um ábyrgð lækna verði fellt á brott eða ekki snýst eingöngu um það hvort læknar verði tilgreindir sérstaklega eða falli undir almenna ákvæðið um heilbrigðisstarfsmenn í 2. málslið 3. mgr. 13. gr. Niðurfelling þessa málsliðar um ábyrgð lækna fæli því ekki í sér neina efnisbreytingu og með því væri á engan hátt dregið úr lagalegri og faglegri ábyrgð lækna né óvissa sköpuð um þá ábyrgð.

Þetta snýst eingöngu um það hvort telja eigi upp ábyrgð sérhverra hinna 33 heilbrigðisstétta á sínu starfssviði og verksviði, eða eins og hér er gert og einnig í þeim lögum sem ég tilgreindi í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, að það sé tryggt að hver stétt beri ábyrgð á sínu ábyrgðarsviði.

Bent var á það fyrir nefndinni að ef þetta ákvæði ætti að standa yrði kallað eftir því að inn kæmi sérákvæði um að hjúkrunarfræðingar beri ábyrgð á hjúkrun. Það var sótt eftir því að það yrði sett inn í lögin. Á sama hátt má hugsa sér að sjúkraþjálfarar beri ábyrgð á þjálfun manna en ekki læknar eða hjúkrunarfræðingar og með sama hætti að lyfjafræðingar beri ábyrgð á lyfjaframleiðslu o.s.frv.

Við erum hér að fara frá gömlum tíma yfir í nýja. Áður voru læknar lengi vel nær eina heilbrigðisstéttin, síðan komu hjúkrunarfræðingar og ljósmæður. Við erum hér að setja nýja heildarlöggjöf um alla heilbrigðisstarfsmenn og allar heilbrigðisstéttir. Við teljum rétt að allir falli með sama hætti undir þá löggjöf.