140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá 2. minni hluta velferðarnefndar um frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn.

Ég vil í byrjun þakka þeim þingmönnum sem sitja í velferðarnefnd fyrir gott samstarf. Okkur hefur tekist, þó að við séum ekki sammála um alla hluti, að nálgast viðfangsefnið málefnalega, við höfum reynt að kryfja helstu álitamál til mergjar og að komast að niðurstöðu þótt stundum skilji leiðir. Í flestu getum við tekið undir þau sjónarmið sem þetta mál grundvallast á og þar af leiðandi nefndarálit meiri hlutans. Engu að síður greinir okkur á um eitt atriði sérstaklega og það varðar 1. málslið 3. mgr. 13. gr. þar sem við höldum því fram að nauðsynlegt sé að halda inni því lagaákvæði að læknir beri ábyrgð á læknisfræðilegri greiningu og meðferð sjúklinga sem til hans leita eða hann hefur umsjón með. Við leggjum því til orðalagsbreytingu sem fram kemur í nefndaráliti okkar þess efnis.

Með frumvarpinu er lögð til heildstæð rammalöggjöf um heilbrigðisstarfsmenn sem hefur það að markmiði að tryggja betur gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina betur og reyna að halda betur utan um það í einu lagi hverjar heilbrigðisstéttirnar eru, færni þeirra stétta og starfshætti þeirra. Frumvarpinu er því ekki eingöngu ætlað að kveða á um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna heldur einnig að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga.

Það er einmitt út af þessum öryggissjónarmiðum sem við teljum nauðsynlegt að halda inni þessu orðalagi og þessu ákvæði 13. gr. frumvarpsins sem fram kemur í frumvarpinu sjálfu. Álit okkar byggir á því að við teljum öryggi sjúklinganna sjálfra betur tryggt með þessum hætti og teljum að það skapist ákveðin óvissa ef þetta liggur ekki fyrir.

Þessi breyting sem 1. minni hluti heilbrigðisnefndar lagði til hefur ekki farið til umsagnar hjá umsagnaraðilum að öðru leyti en því að Læknafélag Íslands sendi inn erindi 5. mars 2012 sem nefndin hefur haft til hliðsjónar þegar unnið var með málið. Það liggur fyrir og kom fram í máli framsögumanns 1. minni hluta, hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, að málið verður tekið inn í nefnd á milli umræðna og það er gott. Þá gæti gefist tími til að fá hugsanlega sjónarmið fleiri aðila en Læknafélags Íslands um þessa breytingu enda varðar þetta mjög marga. Ég held að það væri þarft að fá til fundar við nefndina bæði fulltrúa sjúklinga og þeirra sem nota þjónustuna og hugsanlega einnig álit frá Lögmannafélaginu eða einhverjum slíkum aðila sem horfir á þetta utan frá. Við höfum í vinnunni svolítið einblínt á stéttirnar sjálfar og umræðuna um baráttu stéttanna við að koma inn sjónarmiðum sem þær varða en ég tel að málið hefði gott af því að vera skoðað aðeins betur út frá öryggi sjúklinga og legg það til í umræðuna og vonast til að við höfum tíma til þess í nefndinni að fara aðeins betur í þetta.

Að öðru leyti liggur rökstuðningur okkar fyrir breytingunni fyrir í nefndarálitinu en þar kemur fram að í 13. gr. er kveðið sérstaklega á um að læknar beri ábyrgð á læknisfræðilegri meðferð og greiningu sjúklinga sem til þeirra leita. Með breytingartillögu 1. minni hluta á þetta að falla út og inni á eingöngu að vera almennt ákvæði um að allir heilbrigðisstarfsmenn beri ábyrgð á greiningu og meðferð sjúklinga. Við teljum að þetta verði of óskýrt og of mikil óvissa um hver í raun beri ábyrgðina. Það verður að liggja skýrt fyrir frá þeirri stundu að einstaklingur kemur og tekið er á móti honum á heilbrigðisstofnun hver beri ábyrgð á því að honum sé fylgt eftir og hann fái meðferð og greiningu. Við teljum ríka ástæðu til að hafa þetta sérákvæði um lækna inni, ákvæðinu er ætlað að tryggja öryggi sjúklinga vegna þess að mikil ábyrgð hvílir á þeim sem tekur á móti sjúklingi og fylgir honum alla leið í gegnum þá meðferð og greiningu sem nauðsynleg er þegar viðkomandi einstaklingur leggst inn á spítala. Við teljum þá breytingu sem 1. minni hluti leggur til á frumvarpinu veikja stöðu sjúklinga og í raun skapa óvissu um hvaða heilbrigðisstarfsmaður beri ábyrgð á greiningu þeirra og meðferð sem gæti skapað vandkvæði verði einhver eftirmál eða upp koma ófyrirséð atvik sem varða afgreiðslu, meðferð og greiningu sjúklinga.

Við teljum því rétt að sérákvæði um lækna standi áfram í frumvarpinu en leggjum til lítils háttar breytingu á orðalagi í 1. málslið 3. mgr. 13. gr. þannig að í stað orðanna „læknisfræðilegri meðferð og greiningu“ komi orðin: læknisfræðilegri greiningu og meðferð. Þetta er tillaga sem fram kom í erindi frá Læknafélaginu og því leggjum við til þessa breytingartillögu varðandi orðalagið.

Að öðru leyti eru markmið og gildissvið þessara laga mjög til þess fallin að skýra og einfalda það umhverfi sem heilbrigðisstarfsmenn vinna í og við tökum því undir þær breytingar sem frumvarpið hefur í för með sér, enda hefur þetta mál verið lagt fram í þinginu í líkri mynd af fulltrúum annarra flokka og þar á meðal ráðherra okkar sjálfstæðismanna á sínum tíma.

Frú forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessa ræðu lengri. Ég fagna því að málið verði kallað til nefndar á milli umræðna og vonast til að við fjöllum nánar um þetta mikla álitaefni sem við veltum upp og leggjum fram tillögu um í nefndaráliti okkar.