140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[17:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram ágæt umræða um þetta stóra mál sem ég flutti á sínum tíma. Það fór ekki í gegnum þingið þá en hefur verið flutt nokkuð oft síðan og við skulum vona að allur sá undirbúningur sem hefur farið í málið nýtist vel. Meðan það var skrifað var vinnuhópur í gangi sem hafði samráð við marga aðila og mikil vinna var lögð í það, borið var saman við önnur lönd o.s.frv., og síðan hefur þetta verið tekið fyrir á nokkrum þingum. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að við höldum áfram að vinna það undir þeim formerkjum sem menn hafa unnið með fram til þessa. Ég tel að málið hafi verið unnið í góðri sátt og unnið þannig að sem flestir geti verið sáttir við það.

Rökin fyrir málinu í heild sinni eru þau að skynsamlegt sé að hafa lög um heilbrigðisstarfsmenn í einum lagabálki og að þar náist góð yfirsýn. Það er mjög auðvelt að vera með mörg sérlög um allar þær góðu heilbrigðisstéttir sem við eigum og ég held að ekki þurfi að færa mörg rök fyrir því eða fara mikið yfir það hversu skynsamlegt það getur verið að líta á þetta heildstætt og hafa þetta í einum lagabálki.

Það skiptir hins vegar máli að ekkert falli milli skips og bryggju og að það sem var í öðrum lögum og er kannski grunnurinn að því sem við teljum vera gott í heilbrigðisþjónustu okkar detti ekki út. Ég er þess vegna áhyggjufullur yfir því að taka það út úr frumvarpinu að læknar beri ábyrgð á læknisfræðilegri greiningu og meðferð sjúklinga sem til hans leita eða hann hefur umsjón með. Mér finnst það vera svolítið djarft að taka þetta út þegar málið er á lokaspretti, sem ég vonast nú til að verði að lögum, en í rauninni hafa engin sannfærandi rök komið fram hvað þetta varðar.

Við vitum að okkar góðu heilbrigðisstéttir eiga til að takast svolítið á sín á milli eins og gengur. Það er ekkert sem við breytum með lagasetningu en ég vil trúa því að slíkur rígur fari minnkandi. Það er ekkert leyndarmál að Læknafélag Íslands var á móti því þegar ég lagði af stað með þetta á sínum tíma, það var og er eftir því sem ég best veit enn á því að sérlög eigi að vera um lækna. En ég segi fyrir sjálfan mig að mér hafa ekki fundist vera nógu sannfærandi rök fyrir þeirri skoðun sem kemur fram hjá Læknafélaginu og að ég held — án þess að ég viti það — læknum almennt. En það eru málefnaleg rök fyrir því að taka enga áhættu með það sem snýr að ábyrgð heilbrigðisstétta, ekki síst lækna, og það er slæmt ef það er óskýrt hver ber ábyrgð á hlutum eins og læknisfræðilegri greiningu, sem er jú alla jafna grunnurinn að þjónustunni, það er svona almenna reglan.

Þó að þau lög sem eru í gildi núna kveði skýrt á um það höfum við fundið fjölmörg dæmi um að sjúklingum hafi ekki fundist það nógu skýrt hver beri ábyrgð á því sem að þeim snýr. Það mun örugglega ekki lagast ef lagaleg óvissa er um það.

Ég mælist því til þess í mestu vinsemd, virðulegi forseti — hér er í það minnsta einn fulltrúi meiri hlutans í hv. velferðarnefnd — að nefndin fari yfir þetta áður en meiri hlutinn ákveður það að halda þessu úti, því að við viljum ekki skyggja neitt á þetta góða mál. Það hefur verið lengi í undirbúningi, það hefur lengi verið í umfjöllun þingsins og þess vegna er ekki góður bragur á því að á síðustu metrunum færu menn í breytingar sem mundu kalla á mikið ósætti og miklar deilur. Það er ekkert sem mælir með því.

Mér hefur fundist þau rök sem hér hafa komið fram og ég hef kallað eftir fyrir því að taka þetta út ekki vera nægjanlega sannfærandi, sérstaklega í ljósi þess að, eftir því sem ég best veit, samstaða er um að það eigi að vera mjög skýrt að læknar beri ábyrgð á læknisfræðilegri greiningu og meðferð sjúklinga. Ég held að ekki sé deilt um að skýr lagaleg ábyrgð eigi að vera. Ég held að menn séu sammála um að það sé algjörlega hagur sjúklinga að svo sé. Þess vegna mælist ég til þess að meiri hluti hv. velferðarnefndar hugsi þetta mál einu sinni enn eða hugsi þetta í það minnsta áður en við göngum frá málinu sem lögum frá Alþingi. Ég er alveg sannfærður um að ef hv. þingmenn hugsa um þetta með opnum huga verði niðurstaðan sú að menn hafi þetta áfram inni í frumvarpinu.