140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[17:28]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferlið sem við Íslendingar stöndum í við Evrópusambandið. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Ásmundur Einar Daðason, Pétur H. Blöndal og Árni Johnsen.

Virðulegi forseti. Það er rétt að þakka það í upphafi að loksins er þetta mál komið á dagskrá. Það hefur verið lagt fram nokkrum sinnum. Þessi tillaga var fyrst flutt á 139. löggjafarþingi, en þegar hún var lögð fram í haust var gert ráð fyrir því í dagsetningargrein að þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál yrði í síðasta lagi 1. mars. Nú er það tímamark liðið vegna þess að þrjá mánuði þarf til að hægt sé að senda mál í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur. Við flutningsmenn höfum því tekið ákvörðun um að breyta þessu og leggjum til að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram samhliða forsetakosningum.

Það er vel við hæfi, frú forseti, að þessar kosningar fari fram saman, forsetakosningar og atkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferlið, því að við Íslendingar höfum fengið algjörlega upp í kok af þeim vinnubrögðum sem þessi ríkisstjórn, og þá sérstaklega ráðherrar Samfylkingarinnar, hafa sýnt okkur landsmönnum vegna þess aðlögunarferlis sem Ísland er í. Blekkingarnar og spuninn sem hefur verið keyrður eftir að aðildarumsóknin var lögð inn á sumardögum 2009 er slíkur að það er þyngra en tárum taki að horfa upp á þessi ósköp.

Við getum fullyrt fullum fetum að hér hafi orðið algjör forsendubrestur því að málin hafa breyst á svo slæman hátt að Evrópusambandið eins og það var þegar þessi umsókn var lögð inn er ekki sama Evrópusambandið og það er nú. Á þeim árum sem liðið hafa síðan umsókn okkar var lögð inn má segja að Evrópa hafi hrunið enn frekar. Tökum sem dæmi Grikkland en það hefur nú þegið neyðarlán frá Evrópusambandinu upp á fleiri milljarða evra og hefur afskrifað skuldir sínar, og mér er sagt að á næsta leiti sé að Spánn lendi í sömu vandræðum og Grikkland og hin títtnefndu PIGS-lönd, þ.e. að Portúgal, Ítalía og Grikkland séu á svipuðu róli ásamt Spáni.

Evran hefur ekki staðið sig sem skyldi og stendur nú frammi fyrir miklum vandræðum eins og allir þeir sjá sem vilja fylgjast með, en hæstv. utanríkisráðherra vill greinilega ekki sjá þann vanda sem bæði Evrópusambandið og evran standa frammi fyrir. Hann stendur á því fastara en fótunum að allt sé í himnalagi í Evrópusambandinu og það sé fyrirheitna landið. Meira að segja fara af því sögur, frú forseti, að þegar við framsóknarmenn ætluðum að opna þá umræðu að skoða aðrar leiðir í gjaldmiðilsmálum hafi komið boð frá íslenska utanríkisráðuneytinu í þá átt að kanadíski sendiherrann væri að skipta sér af innanríkismálum. Kanadíski sendiherrann hér á landi átti að ávarpa ráðstefnuna, ekki að vera með pólitíska ræðu eða slíkt, en honum var neitað um það og það var dregið til baka. Þetta sýnir hvað Samfylkingin er orðin örvæntingarfull og hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson um að nokkurn tíma verði af þeim Evrópuveruleika sem hann og flokkurinn sjá fyrir sér.

Ég átti þess kost að hitta þingmenn frá Möltu í gær. Þar er við lýði tveggja flokka kerfi og önnur fylkingin var með því að ganga í Evrópusambandið og hin var því andstæð. Svo fór að Maltverjar gengu árið 2004 inn í Evrópusambandið og stjórnarandstaðan þurfti að lúta í gras gagnvart því að ganga þar inn. Það sem Maltverjar standa frammi fyrir er að þeir þurfa eins og aðrar Evrópuþjóðir að eyða miklu fjármagni til að halda uppi fátækari ríkjum sambandsins. Maltverjar standa ágætlega því að lyfjaiðnaður er sterkur þar í landi en það er allt á sama veg, sú stund sem ég átti með þessum ágætu aðilum gekk fyrst og fremst út á að reyna að heilaþvo mig varðandi hina svokölluðu kosti Evrópusambandsins sem ég kem því miður ekki auga á. Ég var spurð að því um daginn hvort ég gæti ekki nefnt einn kost sem ég sæi við Evrópusambandið. Ég hugsaði mig nokkuð lengi um og niðurstaðan var sú að ég sá engan kost við að við Íslendingar gengjum inn í Evrópusambandið.

Í máli annars þingmannsins frá Möltu í gær kom fram að við ættum ekki að óttast neitt, þeir mundu finna lausn á auðlind okkar, fiskveiðistjórnarkerfinu, og að við fengjum þær undanþágur sem við gætum sætt okkur við þannig að að fiskveiðistjórnarkerfi okkar og fiskveiðiauðlind yrðu varin gagnvart Evrópusambandinu. Ég benti þessum ágæta þingmanni á að líklega væru ekki nema 10–15% hagsmuna okkar Íslendinga falin akkúrat í sjávarútvegsauðlindinni vegna þess að Evrópusambandið mundi ásælast svo langtum meira hér á landi en bara fiskimiðin okkar. Það fór um þingmanninn þegar hann áttaði sig á því að sú umræða væri virk hér á landi að Evrópusambandið ásældist fleira en fiskinn í sjónum. Ég nefndi þar, eins og ég hef nefnt hér í umræðum um Evrópusambandið alveg síðan á sumardögum árið 2009, legu landsins, ásælni Evrópusambandsins í að komast hér inn á norðurslóðir og að fá sæti í Norðurskautsráðinu. Það er heita vatnið, það er kalda vatnið, allt það prótín sem við eigum í sjó, hafsbotninn og allar þær auðlindir sem við eigum sem þjóð. Þegar upp er staðið skiptir líklega lega landsins mestu. Þegar við horfum á landakort heimsins er Ísland akkúrat miðpunkturinn, héðan er nánast jafnlangt til Rússlands, Evrópu og Bandaríkjanna þannig að við skiptum gríðarlega miklu máli til framtíðar. Þetta er Evrópusambandið að sækja í, frú forseti, og ég segi stundum: Milli 60 og 70% þjóðarinnar vilja ekki sjá að ganga þar inn en Evrópusambandið þrýstir mjög á að komast yfir okkur sem þjóð og allar okkar auðlindir og því skal haldið til haga, sérstaklega í ljósi þess að sú ríkisstjórn sem nú situr og reynir að koma okkur þarna inn með öllum okkar gæðum sem við eigum sem sjálfstæð þjóð, sinnir því ekki að setja sérstaka lagasetningu um náttúruauðlindir hér á landi. Á meðan þær eru óvarðar getur Evrópusambandið komið hingað og gert við þær það sem því sýnist.

Því hef ég lagt fram ásamt nokkrum þingmönnum Framsóknarflokksins þingsályktunartillögu sem gengur út á að ríkisstjórninni verði falið að skipa starfshóp sem leggur mat á það hverjar náttúruauðlindir Íslands séu og hvernig eigi að nýta þær. Að sjálfsögðu er þessu máli haldið fyrir utan dagskrá þingsins. Forseti þingsins kemur frá stjórnarflokkunum og forseti þingsins ræður hvaða mál koma á dagskrá og auðvitað er þessi þingsályktunartillaga mín ekki æskileg með tilliti til þess viðræðuferlis sem í gangi er, ekki frekar en sú tillaga sem nú er til umræðu. Þetta er súrt epli sem við stjórnarandstöðuþingmenn megum bíta í, að vera hér með mál eftir mál sem ekki er hleypt á dagskrá.

Það sem vitað er varðandi stöðu mála í dag er að sjávarútvegskerfið okkar er varið, fiskveiðiauðlind okkar er varin að einu leyti, í lögum um erlenda fjárfestingu. Þar segir að eignarhlutur erlendra aðila innan EES-svæðisins megi aldrei vera hærri en 49%. Það er sú hindrun sem Evrópusambandið þarf að koma ríkisstjórninni í skilning um að hrinda úr vegi til þess að það geti veitt hér. Enda hafa hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra viðurkennt að fram þurfi að fara endurskoðun á þeim lögum því að fyrr verðum við ekki tæk til umsóknar, ekki fyrr en búið er að hrinda þessu úr vegi, með vísan til fjórfrelsisins um frjálst flæði fjármagns.

Ég get haldið hér langar ræður um ókosti Evrópusambandsins og hvernig það hefur þróast upp á síðkastið og þann forsendubrest sem þessi aðildarumsókn hefur orðið fyrir hina síðustu mánuði. Það er ekki hægt að ræða þessi mál öðruvísi en að nefna að utanríkismálanefnd þingsins er ekki upplýst um gang mála. Rétt er að benda á að þær stjórnarskrárbreytingar sem nú standa fyrir dyrum hjá ríkisstjórninni snúa meðal annars að því að auðvelda ríkisstjórninni að koma okkur í Evrópusambandið. Til dæmis er það krafa Evrópusambandsins að Ríkisendurskoðun skuli njóta sjálfstæðis samkvæmt stjórnarskrá. Hvað sjáum við ef við lesum drög stjórnlagaráðs? Jú, þar er ákvæði frá stjórnlagaráði þess efnis að sjálfstæði Ríkisendurskoðunar skuli vera bundið og varið í stjórnarskrá. Til að hægt sé að ganga í ESB þarf hér að fara fram fullveldisafsal samkvæmt stjórnarskrá sem er ekki í okkar gömlu og góðu stjórnarskrá eins og hún er í dag. Þrátt fyrir að ýmsu megi breyta í stjórnarskránni er möguleikinn á fullveldisafsali ekki fyrir hendi og því þyrfti að breyta. Og hvað er í tillögum stjórnlagaráðs? Jú, mikil opnun á það hvernig hægt sé að hrinda þessu fullveldisafsali þannig að mjög auðvelt verði fyrir starfandi ríkisstjórn að koma okkur inn í Evrópusambandið.

Svona get ég lengi talið, frú forseti. Það er ofboðslega erfitt fyrir mig sem Íslending í þessu landi sem hefur svo ótal mörg tækifæri, þar sem tækifærin drjúpa af hverju strái, að horfa upp á þá leið sem ríkisstjórnin er að fara undir forustu hæstv. utanríkisráðherra. Það getur tekið nokkuð á að sjá allan þann spuna og heyra ósannindin sem hrjóta af vörum hans eins og ég kom inn á í dag, þegar hann sagði til dæmis í útvarpsviðtali síðastliðinn sunnudag á Bylgjunni að hann teldi að Maastricht-skilyrðunum væri fullnægt hér á landi. Hann álítur að það sé ekki lengur hindrun að þjóðarbúið skuldi hátt í 110% af landsframleiðslu sinni, en Maastricht-skilyrðin ganga út á skuld ríkisins megi aðeins vera 60% af landsframleiðslu. Hann telur nefnilega að því skilyrði sé fullnægt vegna þess að íslenska ríkið eigi svo mikið inni í bönkunum og þá sérstaklega Landsbankanum. Hann ályktaði sérstaklega um það og dró þá ályktun að vegna þess að íslenska lífeyrissjóðakerfi ætti rúmlega 2 þús. milljarða kæmi það til móts við Evrópusambandið að því leyti að sú upphæð minnkaði ríkisskuldir. Það eru alvarleg tíðindi að sjálfur hæstv. utanríkisráðherra skuli ásælast þannig lífeyrissjóði landsmanna og líti raunverulega á þessa inneign sem debetfærslu í ríkissjóði. Þá erum við komin á hættulega braut. Þetta eru reikningskúnstir sem Evrópusambandið og hæstv. utanríkisráðherra eru greinilega miklir snillingar í, en á það skal bent að Evrópusambandinu hefur núna í 17 ár ekki tekist að fá endurskoðendur til að skrifa upp á reikninga þess. Hvernig skyldi standa á því? Jú, vegna þess að slíkum reikningskúnstum og blekkingum er sífellt beitt hjá Evrópusambandinu og því könnumst við vel við það að hæstv. utanríkisráðherra skuli fara fram með þessum hætti. Ég tel að þetta séu alvarleg tíðindi og raunverulega skil ég ekki hvers vegna þessi ummæli hafa ekki farið hátt í fjölmiðlum því að við verðum að standa vörð um lífeyrissjóðakerfi okkar.

Í öðru lagi telur hæstv. utanríkisráðherra það okkar mesta bjarghring að hafa gjaldeyrishöft, eins og hefur svo oft komið fram, því að nú gengur upptaka evrunnar og innganga í Evrópusambandið fyrst og fremst út á það að Evrópusambandið hjálpi okkur sem þjóð að losna við gjaldeyrishöftin. Þvílíkt rugl sem hrýtur af vörum hæstv. utanríkisráðherra. Það var Samfylkingin sem kom gjaldeyrishöftunum á, Samfylkingin var í ríkisstjórn, Samfylkingin lagði til að gjaldeyrishöftin mundu vera í gildi til 1. janúar 2016. Stjórnarandstöðunni tókst sem betur fer að stytta þann tíma um helming. Þau falla úr gildi 1. janúar 2013 að undanskildu því að verið var að festa þau í sessi með hliðarlögum í nótt. Að nota þau rök að Evrópusambandið ætli að hjálpa okkur við að leysa gjaldeyrishöftin og við tökum síðan upp evruna, ég vísa því á bug.

Við eigum fyrst og fremst að standa fyrir styrkri efnahagsstjórn sem útséð er um að ríkisstjórnin ráði við, það er alveg ljóst. Á meðan þessi ríkisstjórn er við völd er okkur hætta búin, frú forseti. Ég hvet þingmenn til að taka þátt í þessum umræðum því að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verður að fara fram í sumar samhliða forsetakosningum. Þjóðin á að hafa um það val (Forseti hringir.) hvort halda eigi þessari vitleysu áfram eða draga (Forseti hringir.) okkur út úr þessu.