140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[17:56]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er fullkomlega ljóst að umsóknin er send á forsendum Evrópusambandsins og við göngum þá inn í það verklag sem Evrópusambandið síðan ákveður í framhaldinu. Það fer ekkert á milli mála að Evrópusambandið stýrir þessari för eftir að umsókn er komin inn og það hefur verið gert við allar þjóðir. Okkar er síðan að bregðast við þeim kröfum sem Evrópusambandið setur fram. Við getum svo sem reynt í rýnivinnunni að stilla fram okkar kröfum en það er algerlega Evrópusambandsins að meta hvernig þær verða meðhöndlaðar.

Evrópusambandið setur t.d. núna opnunarskilyrði bæði á landbúnaðarkaflann og á byggða- og dreifbýliskaflann vegna þess að ekki er sátt um þá fyrirvara sem ég setti sem ráðherra um kröfu þeirra um aðlögun og undirbúning að inngöngu. Þess vegna er það Evrópusambandið sem setur skilyrði en ekki við. Við höfum enn ekki sett nein skilyrði, sem ég tel rangt, fyrir því að halda einhverju ferli áfram. Það er Evrópusambandið sem gerir það alfarið og algerlega á sínum forsendum og telur sig hafa fullan rétt til þess. Ég tel að við hefðum átt að mótmæla því og það gerði ég en það sýnir sig að aðrir vilja ganga skrefinu lengra.

En það er ósköp eðlilegt að Evrópusambandið vilji síðan leggja umsókninni til fjármagn til að það geti yfirtekið regluverk landsins sem greiðast því að frá fyrsta degi aðildar verður aðildarland að geta uppfyllt allar þær kröfur sem Evrópusambandið gerir. Ef við værum að sækja um til að komast inn þá væri vel þegið að fá þetta fé en fyrir okkur lítur þetta meira út sem mútufé.