140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[17:59]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða sýnir hvað það er brýnt að halda þessu máli vakandi í þinginu. Hér talar fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og upplýsir að ESB ræður för í öllu þessu ferli sem sýnir að hæstv. utanríkisráðherra er að segja þjóðinni ósatt þegar hann fullyrðir að íslensk stjórnvöld eða hann persónulega hafi eitthvað um það að segja hvað sé rætt eða hvað skuli leggja upp í þessu ferli öllu.

Þingmaðurinn kom einnig inn á það að um hreina aðlögun er að ræða þannig að það er hreinn spuni og blekking að halda öðru fram. Eins og margoft hefur komið fram skal umsóknarríki vera tilbúið frá degi eitt að taka upp kerfi Evrópusambandsins. Nú er því tímabært að hæstv. utanríkisráðherra fari að segja þjóð sinni satt og rétt frá og hætta þeim spuna sem hefur verið keyrður í gegnum aðlögunarferlið allt. (Forseti hringir.) Það mætti jafnvel halda því fram að hæstv. utanríkisráðherra væri (Forseti hringir.) búinn að gera sig sekan um afglöp í starfi vegna þess hvernig hann hefur hagað sér.