140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[18:25]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann um afstöðu hans til þess og mat hans á því að Alþingi sjálft taki þetta mál til skoðunar, hvort verið sé að vinna samkvæmt þingsályktunartillögunni, því að Alþingi sjálft getur afturkallað þessa umsókn og alla vega stöðvað hana ef hún er ekki í því ferli og reyndar ber Alþingi skylda til að gera það.

Eins og ég vék að áðan þá var kveðið skýrt á um það í þingsályktunartillögunni að umboðið til samninga til ríkisstjórnarinnar og til samninganefndarinnar væri skilyrt. Það má ekki ganga lengra í neinu sem vikið er að sem meginkröfu í þingsályktunartillögunni, ekki má ganga lengra í þá átt að gefa eftir gagnvart Evrópusambandinu. Að mínu mati á allur vafi í þeim efnum að vera Alþingis megin enda á Alþingi að líta svo á.

Ég er ekki í neinum vafa um það að umsóknarferlið, aðlögunin sem þar er komin í gang og það sem bíður okkar í þeim efnum, brýtur gegn þeim ákvæðum og skilyrðum sem sett eru í þingsályktunartillögunni. Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvað honum finnist um það að Alþingi sjálft stöðvi þessa umsókn vegna þess að það hafi orðið fullkominn forsendubrestur eða að málið rekst á veggi sem eru þess eðlis að framkvæmdarvaldið hefur ekki umboð til að ganga lengra.