140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[18:30]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson hefur alltaf lýst sig fullkomlega andvígan inngöngu í Evrópusambandið á öllum stigum þess máls. Þó að hann hafi samþykkt að þetta umsóknarferli færi í gang hefur hann lýst miklum efasemdum um hvort hann sé í því ferli sem ásættanlegt er og afdráttarlausri andstöðu sinni.

Ég vil líka minna á að formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon tók, í atkvæðaskýringu á sínum tíma við afgreiðslu tillögunnar, af öll tvímæli um að hann áskildi sér rétt til að slíta samningaviðræðunum á hvaða stigi sem er. Þó að mér hafi oft fundist hnén á þessum ágæta félaga mínum of bogin varðandi Evrópusambandsviðræðurnar, og í því aðlögunarferli sem þar er, leyfi ég mér að vitna til atkvæðaskýringar hans. Þar segir, með leyfi forseta:

„Öll eigum við það sameiginlegt, þingmenn VG, að áskilja okkur rétt til málflutnings og baráttu utan þings sem innan í samræmi við grundvallaráherslur flokksins og okkar sannfæringu. Það tekur einnig til þess að áskilja okkur rétt til þess að slíta samningaviðræðum séu þær ekki að skila fullnægjandi árangri á hvaða stigi málsins sem er sem og auðvitað að hafna óviðunandi samningsniðurstöðu.“

Það var alveg ljóst frá byrjun að annar stjórnarflokkurinn áskildi sér rétt til að slíta þessum viðræðum við Evrópusambandið á hvaða stigi sem væri og það er þá þingið eitt sem getur slitið þessum viðræðum eða stoppað þær. Ég tel að það sé orðið fullljóst nú að það eigi þingið að gera.