140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[18:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður las upp úr atkvæðaskýringu hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og eitthvað meira. En þegar hv. þingmenn hafa verið að inna hæstv. ráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum og öðru slíku í umræðum á þinginu, eftir því hver hans afstaða er gagnvart þessu ferli þá hefur svar hans verið ansi loðið á alla kanta. Það er erfitt að átta sig á því hver afstaða hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar er til málsins eins og það liggur fyrir í dag.

Það væri kannski heppilegast fyrir stöðu málsins að hæstv. ráðherra, sem nú er orðinn hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, stæði frammi fyrir því að þurfa að greiða atkvæði um tillöguna eins og hún liggur fyrir. Þá gæti þjóðin, þá gæti þingið og þá gæti Evrópusambandið áttað sig á því hvert stefnir með þetta mál. Er pólitískur stuðningur á bak við það? Eða er raunin sú að þingflokkur Samfylkingarinnar er að verða algerlega einangraður í málinu? Annaðhvort er þingflokkur Samfylkingarinnar að verða einangraður í málinu eða stór hluti VG er þá að renna inn í Samfylkinguna.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að fram fari atkvæðagreiðsla um stöðu Evrópusambandsumsóknarinnar til að átta sig á því hvert baklandið er á bak við hana. Það liggur ljóst fyrir að margir eru að vakna til lífsins um þetta mál, að það sé á villigötum. Margir hv. þingmenn sem hafa hingað til aldrei léð máls á öðru en að halda þessu ferli áfram í óbreyttri mynd eru nú að byrja að sjá ljósið vil ég meina. Þess vegna er mjög mikilvægt að þetta mál fái afgreiðslu.

Ég vil enn og aftur beina því til hæstv. forseta að tryggja að þetta mál verði ekki svæft í nefnd og það verði tryggt að það komi til atkvæðagreiðslu áður en þessu þingi lýkur.