140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[18:55]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hafa orðið um þessa þingsályktunartillögu, að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands að Evrópusambandinu fari fram samhliða forsetakosningum nú í sumar. Nú hafa komið fram forsetaframbjóðendur þannig að ljóst er að af forsetakosningum verður.

Upphaf þessa máls er það, frú forseti, að þegar greidd voru atkvæði hinn 16. júlí 2009 um hvort leggja ætti inn umsókn að Evrópusambandinu eða ekki kom fram breytingartillaga að þeirri þingsályktunartillögu sem fól það í sér að Íslendingar gætu farið í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort leggja ætti inn umsókn eða ekki. Þá fóru atkvæði þannig að 30 þingmenn sögðu já við því, 32 þingmenn sögðu nei, einn sat hjá. En í atkvæðaskýringum í þeirri atkvæðagreiðslu kom fram hjá þingmönnum Vinstri grænna að þeir hefðu verið beittir hrikalegum þrýstingi og hefðu setið undir miklum hótunum og ef þeir mundu ekki greiða atkvæði eins og Samfylkingin vildi mundi hin tæra vinstri ríkisstjórn springa í tætlur. Það hefði verið óskandi fyrir íslenska þjóð að ríkisstjórnin hefði sprungið þá strax 16. júlí 2009. Illu heilli situr ríkisstjórnin enn og hefur haldið alveg óskaplega illa á þessu máli. Því var lofað hraðferð, það átti að vera hægt að taka upp evru mjög fljótlega eftir að umsókn var lögð inn. Í dag er 13. mars 2012 og ekkert hefur gerst annað en það að Evrópa er að hrynja í spað fyrir framan augun á okkur sem og evran þannig að þær gulrætur sem í boði voru á borðum þingmanna í júlí 2009 eru löngu visnaðar og farnar enda sjá það allir sem vilja sjá, skynsamt fólk, skynsamir Íslendingar, að þessi leið ríkisstjórnarinnar er hreint glapræði.

Þetta mál fer nú inn í hv. utanríkismálanefnd að mér skilst. Mér finnst vera gert nokkurt ójafnvægi á milli þingsályktunartillagna um þjóðaratkvæðagreiðslur því að hér var til umræðu í þarsíðustu viku tillaga til þingsályktunar um að hið íslenska sjávarútvegskerfi mundi fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég veit ekki alveg hvern á að spyrja að því en þá var því máli vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég hef rætt við forseta um það að mér finnst að þetta mál ætti heima í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna þess að hér er um þjóðaratkvæðagreiðslu að ræða en svo virðist ekki vera og því fer þessi þingsályktunartillaga til utanríkismálanefndar.

Málið verður að vinna hratt og vel eins og fram hefur komið. Tíminn er skammur og vísa ég enn og aftur í það að ég hef verið að biðja forseta um að setja þetta á dagskrá að minnsta kosti tvisvar í mánuði allt frá því í haust en nú er þetta fyrst að komast til fyrri umr. Nú þarf málið að fara til nefndar sem þarf að fá umsagnaraðila að málinu en það verður að vera komið aftur inn til afgreiðslu inn í þingið í síðasta lagi 30. mars því að þá rennur út það þriggja mánaða tímatakmark sem þarf til að ákvarða að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég óska því eftir að málið fái hraða, góða og efnislega umræðu því oft var þörf en nú er nauðsyn, frú forseti, að landsmenn grípi aftur inn í óhæfuverk þessarar ríkisstjórnar sem hefur fengið á sig hæstaréttardóma á þá sem hafa brotið lög, sem hafa framið mörg afglöp í starfi eins og frægt er orðið, svo við tölum ekki um það að ríkisstjórnin hefur nú þegar fengið á sig tvær bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur þegar landsmenn felldu svo eftirminnilega í tvígang Icesave-samningana sem ríkisstjórnin ætlaði að koma yfir á Íslendinga.

Nú þarf þjóðin að hjálpa okkur í minni hlutanum enn á ný, okkur framsóknarmönnum sem styðja þessa tillögu og sjálfstæðismönnum sem eru meðflutningsmenn, að hér verði gripið enn á ný fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og að landsmenn fái að segja til um það þann dag sem þeir kjósa sér forseta hvort eigi að halda þessu glapræði áfram eða ekki. Spurningin er einföld: Á að stoppa það aðlögunar- og viðræðuferli sem Ísland er í gagnvart Evrópusambandinu? Svarið verður já eða nei. Verði svarið já er ríkisstjórnin umboðslaus í málinu og þarf að taka þetta til sín. Ég minni samt á að þetta er ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla en skoðanakannanir sýna að mikill meiri hluti landsmanna vill ekki að þessu verði haldið áfram. Verði svarið nei er ríkisstjórnin búin að fá það umboð sem hún þurfti í upphafi fyrir því að fara af stað með málið.

Frú forseti. Ég þakka á ný umræðurnar og legg til að þessi þingsályktunartillaga fari til hv. utanríkismálanefndar.