140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á ákaflega athyglisverðri yfirlýsingu hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar í fjölmiðlum í gær sem verður ekki skilin á annan veg en þann að hæstv. ráðherra dragi í efa sjálfan grundvöll ákærunnar á hendur hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, ákæru sem hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon stóð þó að. Hér er ég að vísa til þess að í fjölmiðlum í gær var hæstv. ráðherra spurður hvort hann teldi að stjórnvöld hefðu getað brugðist við á árinu 2008. Svar hæstv. ráðherra var svona, með leyfi virðulegs forseta:

„Það er alltaf mjög erfitt að meta það. Þarna voru aðstæður orðnar mjög erfiðar. Það var ekki auðveld staða sem þarna var komin upp.“

Síðar, með leyfi virðulegs forseta:

„En það er erfitt að svara því síðan hvað menn hefðu getað gert á árinu 2008.“

Þetta eru ákaflega athyglisverð ummæli. Í fyrsta lagi er hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon í hópi ákærenda í máli Geirs H. Haardes. Það er grundvallaratriði í íslensku réttarfari og raunar í réttarríkjum almennt að menn ákæri ekki nema menn telji yfirgnæfandi líkur á að viðkomandi sé sekur en ekki saklaus.

Í annan stað er hæstv. ráðherra að tala um tímabilið á árinu 2008. Í ákæruskjalinu sem Alþingi samþykkti á sínum tíma segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Málið er höfðað á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir brot framin á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár …“

Það er sem sagt verið að tala um þetta tímabil þegar hæstv. ráðherra leyfir sér að efast um að hægt hefði verið að grípa til nokkurra aðgerða til að forða bankahruninu. Það eru mjög mikil tíðindi sem hæstv. ráðherra er að flytja, ekki í sjálfu sér efnisleg heldur eru tíðindi í sjálfu sér að einn af ákærendunum í þessu máli sé hérna sjálfur farinn að hafa efasemdir um að það hafi verið efnisleg innstæða fyrir ákærunni. Þarna fetar hæstv. ráðherra í sömu slóð og (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra sem þó stóð ekki að ákærunni og ég fagna því að hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sé farinn að hafa efasemdir um mál sem hann var margoft varaður við.