140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Það fer að verða daglegur viðburður að þingmenn Samfylkingarinnar komi hér í ræðustól og fari með hrein ósannindi. (VigH: Rétt.) (Gripið fram í: Rangt.) Hv. þm. Magnús Orri Schram hóf hér leikinn enn einn daginn um að framsóknarmenn vildu einhliða taka upp kanadadollar. Það hefur líka verið talað um að við vildum einhliða taka upp norska krónu. (Gripið fram í.) Við höfum hins vegar boðið upp á það að skoða fleiri valkosti, að ræða hlutina. Kanadamenn sýndu því máli það mikinn áhuga að þeir sögðu að ef íslensk stjórnvöld vilja ræða við okkur um tvíhliða samninga um gjaldmiðla erum við tilbúin til þess. En hvað sögðu þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar? Nei, takk, og komu í veg fyrir að sendiherra Kanada á Íslandi fengi að tala (Gripið fram í.) á ráðstefnu um gjaldmiðlamál. (Gripið fram í: Þetta er kolrangt.) (Gripið fram í.)

Síðan þegar við vorum að ræða hér um norsku krónuna var það sama upp á teningnum, norska ríkisstjórnin sagði: Auðvitað verður að koma frá íslenskum stjórnvöldum beiðni um viðræður. Íslenska ríkisstjórnin, Vinstri grænir og Samfylking, sagði: Við höfðum auðvitað engan áhuga á því.

Það eru hreinustu ósannindi að framsóknarmenn stefni að því að taka einhliða upp einhvern gjaldmiðil. Við (Gripið fram í.) viljum hins vegar skoða alla kosti og á meðan við höfum krónuna viljum við berjast fyrir henni. En allt frá 2007, frá því að Samfylkingin kom í ríkisstjórn, hefur hver einasti ráðherra [Háreysti í þingsal.] Samfylkingarinnar komið í ræðustól á erlendum og innlendum fjölmiðlum og hamast á íslensku krónunni. Skyldi það ekki hafa haft einhver áhrif að annar stjórnarflokkurinn í landi hafi í fimm ár barist og lamið á íslenska gjaldmiðlinum daginn út og daginn inn? (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Auðvitað hefur það áhrif á íslenska (Forseti hringir.) gjaldmiðilinn, íslensku krónuna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)