140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í næstu kosningum verður kosið um hvaða stjórnmálaflokkur vill ganga inn í Evrópusambandið og hvaða stjórnmálaflokkur eða flokkar vilja það ekki. Ég held að mjög margir hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar Vinstri grænir sviku kosningaloforð sín um að standa vörð um það að ekki yrði gengið í Evrópusambandið. Auðvitað eru til vindhanar í þessu eins og öðru.

En ég ætla að fagna einu sérstaklega og það var þegar 2. varaformaður fjárlaganefndar kom hér upp og viðurkenndi að það hefði verið misráðið og beinlínis mistök að færa safnliðina út úr fjárlaganefnd. Þetta var gert með fögrum orðum en það var nákvæmlega ekkert á bak við þau fögru orð. Ég benti á að verið væri að færa aukin völd til ráðuneytanna og staðan í dag er einfaldlega sú að ráðstöfunarfé einstakra ráðherra hefur verið stóraukið, til að mynda hefur ráðstöfunarfé hæstv. menntamálaráðherra verið margfaldað. Þetta er þvert á það sem rannsóknarskýrsla Alþingis sagði og þvert á það sem þingsályktunartillaga um að styrkja þingið kvað á um.

Mig langar aðeins að koma inn á þá skemmtilegu og málefnalegu umræðu um krónuna sem hófst á því þegar hv. (Gripið fram í.) þm. Magnús Orri Schram … Vill hæstv. forseti beita sér fyrir því að hér séu skynsamlegri frammíköll þegar ég ræði þetta mál? Hv. þingmaður fullyrti að við framsóknarmenn hefðum haldið ráðstefnu um það að við ættum að taka upp kanadadollara en það er rangt. (Gripið fram í.) Við vildum hins vegar beita okkur fyrir því að hér yrði málefnaleg umræða um þetta. (Gripið fram í.) Og þingmenn Samfylkingarinnar verða að svara því hvernig þeir (Gripið fram í.) ætla að koma í veg fyrir stóraukið atvinnuleysi ef við tökum upp evruna. (Forseti hringir.) Því hefur verið haldið fram að vextir verði lægri en það stenst bara ekki.

Virðulegi forseti. Ég verð að gera athugasemdir við þessi frammíköll. (Forseti hringir.) Þetta er bara ekki nógu skemmtilegt. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur þingmenn til að virða tímamörk og gefa ræðumönnum tóm til að tala úr ræðustól.)