140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég held að rétt væri (ÁPÁ: … tala niður krónuna.) að forseti gæfi hv. þm. Árna Páli Árnasyni smápláss í dagskránni þannig að hann gæti hætt ræðumennsku sinni utan úr sal, því að vissulega virðist Samfylkingunni svíða þau orð þegar við bendum á þá sundrungu sem ríkir innan ríkisstjórnarinnar. Það vakti hins vegar athygli mína þegar við framsóknarmenn bentum hér á þann málflutning sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur viðhaft gagnvart gjaldmiðli þjóðarinnar að hv. þm. Jóni Bjarnasyni virtist ekki leiðast þær ræður sem við höfum haldið hér og rætt um málflutning leiðtoga ríkisstjórnarinnar.

Staðreyndin er sú að það er skylda stjórnmálamanna í dag og þá skyldu höfum við framsóknarmenn rækt mikið að undanförnu að fara með skynsamlegum hætti yfir gjaldmiðilsmál þjóðarinnar. Það er ljóst að við búum við gjaldmiðil sem heitir króna. Það er skylda okkar að tala vel um gjaldmiðilinn okkar þannig að aðrir hafi trú á þeim gjaldmiðli. (Gripið fram í.) Því miður hefur hæstv. forsætisráðherra ekki slegist í lið með okkur framsóknarmönnum við að tala gjaldmiðil okkar upp heldur hefur hún þvert á móti lýst því yfir við alþjóð og við alþjóðasamfélagið að við búum við ónothæfan gjaldmiðil. (Gripið fram í.) Íslensk þjóð á ekki skilið að búa við forsætisráðherra sem talar með þessum hætti. Eins. (Gripið fram í.) og ég sagði áðan mundum við hvergi á byggðu bóli, hjá engri annarri þjóð, finna forsætisráðherra sem talaði með viðlíka hætti um gjaldmiðil sinn. Það er ámælisvert og sýnir að Ísland er í raun og veru að verða einstakt land, ekki aðeins á sviði atvinnumála eða fólksflótta heldur líka þegar kemur að því hvernig forustumenn þjóðarinnar tala um undirstöðu atvinnulífsins, undirstöðu velferðar í landinu, sem er sjálfur gjaldmiðillinn. (Gripið fram í.) Við eigum annað og betra skilið en það. [Frammíköll í þingsal.] (Forseti hringir.)