140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

netfærsla af nefndarfundi.

[15:39]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli forseta á því hversu ósmekkleg þau ummæli voru sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson viðhafði hér um einn stjórnmálaflokk í ræðu sinni. Ekki einungis sagði hann allan málflutning þess flokks vera rugl heldur væri sá flokkur ekki stjórnmálaflokkur heldur sértrúarsöfnuður. (Gripið fram í.)

Auðvitað er það svo að við þurfum að geta talað saman um dagskrána og um fundarstjórn forseta og farið efnislega í mál en svona uppnefni eins og hjá hv. þingmanni eru ekki til neins árangurs fallin og eru einungis þeim sem viðhafa þau til minnkunar.