140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

skuldbindingar ríkissjóðs sem ekki eru nefndar í fjárlögum eða fjáraukalögum.

[15:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hin hagsýna húsmóðir — og til að gera mig ekki sekan um misrétti í kynjum nefni ég hinn hagsýna húsbónda líka — gætir þess ætíð að gjöld séu í samræmi við tekjur heimilisins, þ.e. séu lægri en tekjurnar. Ef hún tekur lán sem sumt fólk gerir öðru hverju og menn neyðast til að gera þegar þeir kaupa sér íbúð gætir hún þess að vita hvað lánið er hátt, hvað hún mun koma til með að greiða á hverjum tíma og reiknar með því í bókhaldi sínu.

Í 41. gr. stjórnarskrárinnar er tekið mið af þessu. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Klippt og skorið. Það má ekkert greiða úr ríkissjóði nema getið sé um það í fjárlögum eða fjáraukalögum. Síðan stendur í 2. málslið 40. gr., með leyfi frú forseta:

„Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“

Þetta þýðir að allar skuldbindingar ríkissjóðs eiga að vera uppi á borðum hvenær sem er, á hverjum tíma, með fjárlögum og fjáraukalögum. Á þessu er orðinn töluverður misbrestur og þann 17. janúar sl. sendi ég bréf til forsætisnefndar með ósk um að ríkisendurskoðandi gerði skýrslu um þær skuldbindingar sem ekki eru færðar í ríkisreikningi eða fjáraukalögum, hvorki í fjáraukalögum né fjárlögum og falla sem sagt ekki undir þessi ákvæði stjórnarskrárinnar.

Hér hefur borist mjög góð skýrsla frá Ríkisendurskoðun um einmitt þetta atriði og um það ætla ég að fjalla núna. Ég vil benda á það í leiðinni að vandamál margra ríkja í Evrópusambandinu sem mikið hafa verið til umræðu undanfarið eru einmitt vegna þess að menn hafa ekki fært þær skuldbindingar sem ríkissjóður ber í hverju landi. Það kemur í hausinn á mönnum seinna ef þeir vita ekki hvað þeir eru búnir að skuldbinda sig mikið. Það er mjög mikilvægt að menn viti hverju sinni hvað ríkissjóður skuldar.

Ég get að sjálfsögðu ekki farið í gegnum alla skýrsluna en ég ætla að fara í gegnum nokkur atriði, sérstaklega 6. gr. ákvæðin. Þar stendur að margar heimildir í 6. gr. séu settar án tölulegs þaks, þ.e. menn vita ekkert hvaða skuldbinding er innifalin. Þetta á við um byggingu háskólasjúkrahúss, tónlistarhúsið Hörpu, Vaðlaheiðargöng og sitthvað fleira sem er laumað þarna inn. Þetta eru gífurlegar skuldbindingar. Ég minni á að Harpa er þarna inni og hún hefur hvorki verið færð í fjárlög né fjáraukalög. Svo er margt fleira, það er fjöldi atriða þarna inni.

Síðan eru skuldbindingar vegna LSR, bæði vegna B-deildar og því miður líka vegna A-deildar sem átti að standa undir sér. Í annarri deildinni vantar 300 milljarða, eitthvað svoleiðis, og í hinni 47, ekki fært í fjárlög eða fjáraukalög. Þetta er agaleysi, nokkuð sem kemur í höfuðið á landsmönnum seinna meir. Sama á við um Tryggingastofnun, þar eru líka gífurlegar skuldbindingar. Við erum búnir að lofa lífeyri en hvergi er getið um það loforð sem skuldbindingu til framtíðar. Það stendur í skýrslunni, með leyfi frú forseta:

„Sú spurning vaknar reyndar hvort Tryggingastofnun ríkisins beri að hætta greiðslum sé fjárheimild til viðkomandi liðar uppurin eða hvort bótaþegar geti byggt rétt til greiðslu á ákvæðum almannatryggingalaga hvað sem líður ákvæðum fjárlaga.“

Þetta finnst mér að þurfi að vera á hreinu. Menn þurfa að meta hversu mikið Tryggingastofnun muni kosta.

Það eru fjöldamörg önnur atriði sem ég hefði gjarnan viljað fara í. Ég get um Icesave sem aldrei var í fjárlögum eða fjáraukalögum og var sem betur fer fellt. Ég nefni ríkisábyrgð vegna innlána og ætla að koma inn á það rétt sem snöggvast. Ríkisendurskoðun segir:

„… ákvæði um ábyrgð ríkisins á innstæðum hafa ekki verið lögfest, hvorki í fjárlögum né í öðrum lögum.“

Það er engin ríkisábyrgð á innstæðum og ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hún ætli ekki að ráða bót á þessu og fara að ákvæðum (Forseti hringir.) þessarar skýrslu og eftir öðrum ábendingum í henni.