140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

skuldbindingar ríkissjóðs sem ekki eru nefndar í fjárlögum eða fjáraukalögum.

[16:03]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, hv. þm. Pétri H. Blöndal, fyrir að hefja þessa umræðu sem er mjög þörf og fellur ágætlega að þeirri vinnu sem nú er unnin í fjárlaganefnd meðal annars við endurskoðun fjárreiðulaga og betri vinnubrögð við uppgjör og eftirfylgni með fjárlögum og reikningsskilum í ríkisreikningum og lokafjárlögum. Þar hefur þetta talsvert verið til umræðu síðustu daga, svo dæmi séu nefnd, og reyndar á undanförnum missirum sömuleiðis.

Það getur verið athyglisvert að velta því fyrir sér í þessu samhengi, án þess að ég ætli að tiltaka sérstaklega þá hluti sem hv. þingmaður nefndi áðan og koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, hvað skuldbindingar eru. Í hverju felast skuldbindingar og hvernig á að færa þær til bókar? Sumar skuldbindingar eru óefnislegar. Ríkið lætur til dæmis ekki sveitarfélög fara á hausinn, það lítur fram hjá þess háttar og gerir ekkert í málinu. Um það eru fjölmörg dæmi. Við höfum axlað þá samfélagslegu ábyrgð að sjá til þess að grunnskólanemendur í sveitarfélögum geti gengið í skóla, starfsmenn sveitarfélaga fái launin sín o.s.frv., en það er hvergi fært til bókar, það hvílir ekki slík skylda á ríkinu að sjá til þess að grípa inn í þegar slík dæmi koma upp og því er erfitt að gera ráð fyrir þeim sem slíkum. Ég nefni nýlegt dæmi um heilbrigðiskerfið um fólk sem orðið hefur fyrir tjóni vegna viðskipta í einkarekna heilbrigðisgeiranum. En við höfum samt sem áður bundist ákveðnum sáttmála um að það skipti ekki máli þegar kemur að því að fólk þurfi að leita lækninga, þá er opinbera heilbrigðiskerfið opið öllum. Slíkar skuldbindingar er erfitt að færa til bókar. Það má að hluta til heimfæra það upp á innstæðutryggingar eða þá yfirlýsingu stjórnvalda sem margoft hefur verið gefin varðandi ríkisábyrgð (Forseti hringir.) eða ábyrgð á innstæðu sem þó er ekki lögleg skylda ríkisins að veita ábyrgð. Þetta er því mjög þörf umræða og það er athyglisvert að velta fyrir sér fleiri þáttum í þessu máli en þeim sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar.