140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

skuldbindingar ríkissjóðs sem ekki eru nefndar í fjárlögum eða fjáraukalögum.

[16:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að taka upp þessa umræðu. Það er gríðarlega mikilvægt að þær skuldbindingar sem ekki eru reiknaðar með efnahagi ríkissjóðs komi mjög skýrt fram í fjárlögum, fjáraukalögum og ríkisreikningi. Það er mikilvægt til að við áttum okkur á hverjar skuldbindingar inn í framtíðina eru í raun og veru þannig að þegar við ræðum fjárlög gerum við okkur grein fyrir því hvað það þýðir þegar menn taka ákvarðanir, ekki bara til eins árs heldur fyrir framtíðina. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega þá hluta sem snúa að 6. gr. heimildinni. Búið er að fjalla töluvert um það í hv. fjárlaganefnd á undanförnum missirum, þar hafa komið upp hugmyndir um að setja inn í fjárlögin og ríkisreikninginn þær skuldbindingar sem ríkið hefur, hvort heldur tónlistarhúsið Hörpu eða hjúkrunarheimilin, þannig að það komi skýrt fram í fjárlögum á hverjum tíma hverjar skuldbindingarnar eru inn í framtíðina. Það gæti hugsanlega verið sett upp sem fimm ára skuldbindingar og eins það sem kemur eftir þann tíma og það tiltekið í fjárlögum, þannig að hægt væri að gera sér grein fyrir því í umræðu um fjárlög í þinginu hvaða áhrif viðkomandi ákvörðun hefur á framtíðina. Það er mjög mikilvægt að það sé gert.

Af því að ég nefndi 6. gr. heimildina er í dag skrifaður texti inn í fjárlagafrumvarpið sem heimilar framkvæmdarvaldinu að taka ákvarðanir um tugi milljarða útgjöld fyrir ríkissjóð fyrir utan þær skuldbindingar sem þær fela í sér fyrir framtíðina. Það hefur því miður gerst allt of oft, en fjárveitingin til þessa fjárlagaliðar er ekki nema 340 millj. kr.

Ég vil segja að endingu að þessi mál eru mjög mikið rædd í hv. fjárlaganefnd þessi missirin. (Forseti hringir.) Ég bind miklar vonir við að komið verði skikk á þessi mál til frambúðar.