140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

skuldbindingar ríkissjóðs sem ekki eru nefndar í fjárlögum eða fjáraukalögum.

[16:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir þær fjölmörgu þakkir sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur fengið vegna þeirrar skýrslubeiðni sem leiddi til skýrslu Ríkisendurskoðunar sem hér um ræðir.

Eftir hrun hefur krafa um aga í ríkisfjármálum, trúverðuga áætlanagerð og gagnsæi aukist. Sú þróun á sé stað hér á landi og hefur ríkisstjórnin beitt sér mikið í því. Það er sama þróun og víða erlendis þótt margar þjóðir standi okkur framar og við nýtum okkur reynslu þeirra við endurskoðun fjárreiðulaga sem hæstv. fjármálaráðherra hefur hrundið af stað.

Fjárlaganefnd hefur fjallað um skýrsluna og mun skila fremur stuttu áliti, enda er margt af því sem rætt er í skýrslunni einnig rætt í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 2010 sem nefndin mun skila ítarlegu áliti um. Ég tel umfjöllunina um fjármögnunarleigu og einkaframkvæmd í þessari skýrslu mjög áhugaverða og hvernig færa beri slíkar framkvæmdir í ríkisreikning. Ríkisendurskoðandi er afgerandi í afstöðu sinni varðandi að gjaldfæra skuli fjármögnunarleigu, en meðferð einkaframkvæmda í ríkisreikningi er flóknari og fer eftir eðli samninga. Það sem eftir stendur er að mikilvægt er að ríkisreikningur endurspegli raunveruleika ríkisfjármála.

Þessi skýrsla er ákaflega gagnleg fyrir þingmenn og hún er mikilvægt gagn fyrir umbótastarf sem fram fer í fjárlaganefnd um þessar mundir sem hefur það að markmiði að auka aga í ríkisfjármálum, trúverðuga áætlanagerð og gegnsæi og þar með heilbrigð ríkisfjármál.