140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

skuldbindingar ríkissjóðs sem ekki eru nefndar í fjárlögum eða fjáraukalögum.

[16:15]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Það var einmitt það sem ég var að hugsa hér í sæti mínu áðan, að við þyrftum jafnvel að taka lengri umræðu um þetta mál. En ég féll frá þeirri hugsun eftir að ég hlustaði á ræðu síðasta ræðumanns. Það er varla boðlegt, um jafnþarft mál og hv. þm. Pétur H. Blöndal er að færa hér upp í þinginu, og ítreka ég þakkir mínar til hans fyrir að hafa vakið athygli á þessu og hafið þessa umræðu, að síðan skuli koma hingað þingmenn og halda slíka ræðu sem hér var haldin áðan (Gripið fram í.) um (Gripið fram í.) grískt ástand í ríkisfjármálum á Íslandi, og að fyrrverandi fjármálaráðherra hafi verið að dreifa ríkisábyrgðum um allar koppagrundir. Hvers konar málflutningur er þetta, virðulegi forseti, um grafalvarlegt (Gripið fram í.) mál? Og að núverandi stjórnvöld séu að falsa bókhald vegna innstæðutrygginga í bönkum. Virðulegi forseti. Það er varla hægt að taka þátt í umræðu af því tagi sem hér er. (Gripið fram í.) Ég verð að mótmæla því sem hér kom fram hvað þetta varðar. Þetta er ekki umræðunni til framdráttar. Ég treysti því að hv. þm. Pétur H. Blöndal færi hana nú á æðra plan en sessunautur hans hér í þinginu dró hana niður á hér áðan.

Það er þrátt fyrir allt rétt það sem hefur komið fram í þessari umræðu, það er fyrst og fremst agaleysið í ríkisfjármálum sem kemur í hausinn á okkur. Það var agaleysi sem kom í hausinn á okkur þegar útgjöld fóru 6, 8 og 9% fram úr fjárlögum á hverju einasta ári, þegar þenslan í kerfinu var upp á 10, 12 og 15% á hverju einasta ári langt, langt umfram eðlileg mörk. Það var agaleysi sem kom í hausinn á okkur. Við skulum ekki láta það gerast aftur.

Ég vil því enn og aftur ítreka, og hefur komið fram hjá fleiri þingmönnum, (Forseti hringir.) þakkir mínar til hv. þm. Péturs H. Blöndals fyrir að vekja máls á þessu og vera þátttakandi í því sem við erum að reyna að gera, meðal annars í fjárlaganefnd, í því að koma böndum á ríkisfjármálin.