140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

skuldbindingar ríkissjóðs sem ekki eru nefndar í fjárlögum eða fjáraukalögum.

[16:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ég hef lesið skýrslu Ríkisendurskoðunar ef hann var að vísa í hana.

En við færslu á skuldbindingum ríkisins er í einu og öllu farið eftir reikningsskilareglum og þar eru engar blekkingar á ferð. Ég vil minna á það hér að fráviksreglan í fjárreiðulögum, um gjaldfærslu varanlegra eigna, hefur í einhverjum tilfellum leitt til stofnunar félaga um framkvæmdir. Þetta er alþjóðleg þróun og þau lönd sem heyra undir alþjóðleg reikningsskil þurfa væntanlega að taka þetta til endurskoðunar í framtíðinni. Endurskoðunin þarf ekki í öllum tilfellum að hafa áhrif á heildarniðurstöðuna þar sem á móti gjaldfærslunni kemur eignafærsla.

Allan stofnkostnað þarf að gjaldfæra og því verður halli á ríkissjóði meiri ef framkvæmdin er sögð opinber. Því hefur stofnun félaga vaxið þannig að litið er á framkvæmdina sem einkaframkvæmd og þannig er gjaldfærsla stofnkostnaðar ekki í ríkissjóði.

Ég er sammála því að ef ríkissjóður eða stofnanir ríkissjóðs stofna til skuldbindinga á að skrá þær og fylgja á í einu og öllu reglum um reikningsskil hvað það varðar.

Nú stendur yfir endurskoðun á fjárreiðulögum, sem kölluð verða lög um opinber fjármál, þar sem bæði verður farið yfir fjármál sveitarfélaga og ríkisins. Þetta atriði verður einnig til skoðunar þar. Fara þarf í gegnum allt kerfið til að yfirfara skráðar skuldbindingar sem eru í gegnum félög. Á meðan á breytingaferlinu stendur þarf að skilgreina og gera grein fyrir skuldbindingunum í texta ríkisreiknings.

Með auknum aga í fjármálum ríkisins hafa stjórnvöld náð tökum á miklum vanda sem skapaðist við hrunið og áframhaldandi vinna við áætlanagerð, bæði til lengri og skemmri tíma, þarf að eiga sér stað. Samkvæmt orðum hv. þingmanna hér í dag má búast við því að þverpólitísk samstaða og stuðningur sé við það verk.