140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[16:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom við 3. umr. í gær um þetta frumvarp, og raunar líka við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr., hef ég áhyggjur af því að erfitt verði að framkvæma ákvæði þessa frumvarps, þó það stefni vissulega að jákvæðum markmiðum, og að það muni hafa í för með sér fyrirhöfn og kostnað sem ekki hefur verið lagt í að meta. Aðilar af hálfu sveitarfélaganna hafa til dæmis varað við því að frumvarpið verði samþykkt í þessu formi. Af þeim sökum get ég ekki stutt það. Þótt málið sé án efa flutt í mjög virðingarverðum og göfugum tilgangi, held ég að frumvarpið sé þess eðlis að ekki sé hægt að styðja það við þessa atkvæðagreiðslu.