140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[16:27]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýst um þau einföldu og sjálfsögðu mannréttindi að almenningur eigi rétt á því að fá upplýsingar frá stjórnvöldum sem tengjast umhverfismengun sem geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á heilsu fólks í þessu landi eða dýr eða umhverfi. Tilefnið var brotalöm sem við höfum margoft farið yfir hér í þinginu og tengdist eftirlitskerfi umhverfis- og heilbrigðismála í kjölfar frétta um díoxínmengun í Skutulsfirði fyrir rúmu ári þar sem birtist okkur sú mynd að opinberir eftirlitsaðilar töldu sig ekki hafa þá skyldu að upplýsa almenning um mengun sem gæti haft áhrif á heilsu manna í landinu.

Með þessu frumvarpi er gerð bragarbót á lagaumhverfinu hvað þetta varðar. Frumkvæðisskyldan er nú klár og skýr í 3. gr. frumvarpsins. Ég tel að við séum að stíga hér mjög mikilvægt og nauðsynlegt skref í þá átt að eftirlitsstofnanir í landinu sinni skyldu sinni.