140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

málefni aldraðra og heilbrigðisþjónusta.

307. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. velfn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu (sameining vistunarmatsnefnda).

Með frumvarpinu er lagt til að vistunarmatsnefndir fyrir hjúkrunarrými og dvalarrými verði sameinaðar innan heilbrigðisumdæma. Frumvarpinu er þannig ætlað að auðvelda öldruðu fólki að fá vistunarmat vegna dvalar á stofnun og einnig að gera vistunarmat samfellt og heildstætt hvort sem þörf er á dvalarrými eða hjúkrunarrými. Nefndin telur að um mikilvæga breytingu sé að ræða en bendir jafnframt á nauðsyn þess að samþætta félagsþjónustu sveitarfélaga og möguleika hennar til stuðnings við aldraða sem búa heima með því að þau úrræði sem matsnefnd fyrir dvalarheimili hefur haft verði áfram í boði og til athugunar enda þótt ein matsnefnd meti bæði þörf á dvöl í dvalarrými og hjúkrunarrými.

Fyrir nefndina komu fulltrúar Landssambands eldri borgara og hreyfðu þeim sjónarmiðum að mikilvægt væri að breyta orðalagi laga sem varða málefni aldraðra til samræmis við nútímahugmyndafræði. Nefndinni var bent á að breytt hugmynda- og aðferðafræði kallar á breytta málnotkun og tungutak jafnt í lögum og reglugerðum sem í almennu talmáli. Þannig væri til að mynda eðlilegt að breyta orðinu ellilífeyrisþegar í eftirlaunafólk, dagvist í dagdvöl, vistmanni í heimilismann og vistunarmati í færni- og heilsumat. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og telur mikilvægt að færa orðalag lagatexta til nútímans með áherslu á mannvirðingu og réttindi fólks. Í lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, er talsvert víða vísað til vistunar aldraðra, aldraðir sem dvelja á öldrunarstofnunum eru nefndir vistmenn, mat fyrir þörf á dvöl á stofnun er nefnt vistunarmat og fleira í þeim dúr. Nefndin telur eðlilegt að ræða fremur um dvöl en vistun og að breyta eigi heiti vistunarmatsnefnda í færni- og heilsumatsnefndir. Þá telur nefndin mikilvægt að lögð sé áhersla á að aldraðir séu ekki vistaðir á heimilum með því að nota hugtakið heimilismaður í stað vistmanns.

Í ljósi þessa, virðulegi forseti, leggur nefndin til talsvert margar tillögur til breytinga á frumvarpinu sem og öðrum ákvæðum laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, og einni grein laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2007. Eru þessar breytingar í samræmi við breytta orðnotkun á sérstöku skjali þar sem allar þessar breytingartillögur eru framlagðar og vísað í sérstök lög þar að lútandi.

Nefndin vill hins vegar benda á að orðið ellilífeyrisþegi kemur ekki fyrir í lögum um málefni aldraðra en allvíða annars staðar í lagasafni. Leggur nefndin því ekki til breytingu á þessu orði að svo stöddu en beinir því til velferðarráðuneytis að við endurskoðun laga um almannatryggingar svo og við yfirfærslu málaflokks aldraðra frá ríki til sveitarfélaga verði hugað sérstaklega að þessum þætti og orðnotkun í lögum sem varða málefni aldraðra breytt til samræmis við hugmynda- og aðferðafræði nútímans og réttindi eftirlaunafólks.

Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins þurfa öll önnur úrræði til að fólk geti búið í heimahúsi að vera fullreynd áður en kemur að dvöl í hjúkrunar- eða dvalarrými. Þess vegna bendir nefndin á mikilvægi þess að í lagatextanum yrði sérstaklega tilgreint að raunhæf úrræði væru fullreynd. Nefndin telur nauðsynlegt að þetta verði fullreynt til að hægt sé að koma til móts við þá einstaklinga sem þurfa á dvöl að halda. Nefndin telur ljóst að það sé ekki tilgangur ákvæðisins að beina öldruðum eða öðrum sem þörf hafa fyrir dvalar- eða hjúkrunarrými í úrræði sem ekki hentar viðkomandi. Slíkt hefur í för með sér ríkt óhagræði fyrir einstaklinginn, tefur það að hann fái þá þjónustu sem hann hefur þörf fyrir og leiðir að auki til þess að fjármunum heilbrigðiskerfisins er ráðstafað á óhagkvæman hátt. Þess vegna þurfi í raun, eins og nefndin gerir kröfur um, að til þess að skilyrðið raunhæft úrræði teljist uppfyllt þurfi einstaklingur að hafa fullreynt úrræði sem í upphafi var augljóst að hentaði ekki þörfum hans, þetta sé til dæmis að nokkru leyti galið. Nefndin leggur því til breytingu á frumvarpinu á þann veg að raunhæf úrræði séu fullreynd til að tryggja réttan skilning og framkvæmd ákvæðisins.

Þess ber að geta, virðulegur forseti, að fyrir nefndinni voru þau sjónarmið viðruð að mikilvægt væri að við mat á því hvort úrræði teldust fullreynd væri aðstoð ættingja metin til jafns við önnur félagsleg úrræði. Ættingjar hefðu oft veitt öldruðum mikla og margvíslega aðstoð sem ekki er skráð og getur orðið til þess að við mat á þörf á dvalar- eða hjúkrunarrými telji færni- og heilsumatsnefnd að unnt sé að grípa til vægari úrræða til að einstaklingur geti búið í heimahúsi. Nefndin óskaði upplýsinga um þetta frá velferðarráðuneyti og var tjáð að ekki væri unnt að setja þetta sem skilyrði í lagatextann þar sem ættingjum væri ekki skylt með lögum að veita aðstoð af þessu tagi. Nefndin leggur því ekki til breytingu á frumvarpinu en áréttar mikilvægi þess að þörf einstaklings fyrir dvalar- eða hjúkrunarrými sé metin heildstætt og tekið sé tillit til allra aðstæðna. Hafi einstaklingur fengið mikla aðstoð ættingja sem nægi þó ekki til að hann geti búið í heimahúsi telur nefndin að auki einsýnt að önnur vægari úrræði en dvöl í dvalar- eða hjúkrunarrými geti vart talist raunhæft úrræði. Nefndin bendir á að sú breytingartillaga sem gerð er grein fyrir hér að framan um að raunhæf úrræði séu fullreynd áður en einstaklingur getur fengið dvöl í dvalar- eða hjúkrunarrými tengist þessu máli. Þess vegna telur nefndin að matsnefnd þurfi því að horfa til þess hvort aðstoð ættingja hafi verið veitt til að meta hvort raunhæft sé að grípa til vægari úrræða eða hvort einstaklingur fái dvöl í dvalar- eða hjúkrunarrými.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. gildandi laga um málefni aldraðra skal meta þörf aldraðs einstakling fyrir dvöl á öldrunarstofnun eða önnur úrræði hafi hann verið lengur en sex vikur á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar. Með frumvarpinu er þetta ákvæði fellt brott og því verður þörf einstaklings einungis metin hafi hann sjálfur sótt um dvöl í hjúkrunar- eða dvalarrými. Nefndin telur mikilvægt að halda þessu ákvæði inni enda leggur það frumkvæðisskyldu á opinbera aðila og tryggir að unnt sé að veita hinum aldraða betri þjónustu með því að beita því úrræði sem hentar best þörfum hans. Leggur nefndin því til breytingu þessu til samræmis.

Nefndinni var tjáð að mikilvægt væri að kveða með skýrum hætti á um hvíldarinnlagnir. Það úrræði hafi nýst vel til að aldraðir geti búið sem lengst í heimahúsi en aftur á móti séu ekki skýr ákvæði þar að lútandi. Þó er í 2. tölulið 1. mgr. 14. gr. laga um málefni aldraðra gert ráð fyrir þeim möguleika að einstaklingur geti komi til skammtímavistunar eða skammtímadvalar í hjúkrunarrými sé þess þörf. Nefndin telur vert að breyta ákvæðinu og tilgreina sérstaklega að um hvíldarinnlögn sé að ræða auk þess sem matsnefndum verði samkvæmt lögunum einnig falið að meta þörf aldraðs einstaklings sem býr í heimahúsi fyrir hvíldarinnlögn.

Þeim sjónarmiðum, virðulegur forseti, var komið á framfæri við nefndina að mikilvægt væri að víkka út fagsvið þeirra sem skipa matsnefndir. Þannig væri til dæmis ekki minnst á öldrunarfræði sem þó er viðurkennd grein og kennd á meistarastigi við Háskóla Íslands. Í frumvarpinu er tiltekið að þriggja manna matsnefnd skuli skipuð lækni með sérmenntun í öldrunar- eða heimilislækningum eða langvinnum sjúkdómum, hjúkrunarfræðingi með þekkingu á öldrunarþjónustu eða hjúkrun langveikra og félagsráðgjafa með þekkingu á félagsþjónustu við aldraða eða langveikt fólk. Varamenn skulu hafa sömu þekkingu og sé nefnd skipuð sex mönnum skulu nefndarmenn uppfylla sömu menntunarskilyrði. Nefndin telur mikilvægt að færni- og heilsumat sé unnið heildstætt og að því komi einstaklingar með fagþekkingu á viðeigandi sviði. Leggur nefndin því til þá breytingu að í stað félagsráðgjafa með þekkingu á félagsþjónustu við aldraða eða langveikt fólk verði einnig — ég ítreka, verði einnig unnt að ráða sálfræðing eða öldrunarfræðing með sömu þekkingu. Ekki er verið að senda félagsráðgjafana í burt úr nefndinni heldur að heimilt sé að ráða einnig sálfræðing eða öldrunarfræðing með sömu þekkingu.

Virðulegur forseti. Einnig kom töluvert til umræðu dvöl yngra fólks í dvalar- eða hjúkrunarrými. Nefndin hefur reynt að afla sér upplýsinga um fjölda þeirra sem ekki hafa náð eftirlaunaaldri sem dvelja í dvalar- eða hjúkrunarrýmum. Þessar upplýsingar liggja þó ekki fyrir og því ekki unnt að meta þjónustuþörf hópsins eða skipuleggja þjónustu við hann á landsvísu. Nefndin telur hins vegar mjög brýnt að þessi mál verði könnuð og kortlögð og beinir því til velferðarráðuneytisins að það verði gert.

Nefndin gerir ekki athugasemd við að sama nefnd meti annars vegar þörf aldraðra fyrir dvöl í dvalar- eða hjúkrunarrými og hins vegar þörf þeirra sem ekki hafa náð eftirlaunaaldri. Hún bendir þó á að mikil áhersla er lögð á að þeir sem sitja í matsnefndum hafi þekkingu á öldrunarlækningum eða öldrunarþjónustu, en þegar um yngri einstaklinga er að ræða þarf oft að horfa til annarra þátta. Til að mynda er algengt að sótt sé um dvöl fyrir einstaklinga með heilabilun en þeir geta verið líkamlega mjög heilir og frískir en samt haft ríka þörf fyrir dvöl í hjúkrunar- eða dvalarrými. Nefndin áréttar að þegar þörf er á því, m.a. vegna veikinda einstaklings eða aldurs, sé tryggt að færni- og heilsumatsnefndir geti leitað til sérfræðinga á öðrum sviðum til að meta þörf einstaklinga fyrir dvöl í dvalar- eða hjúkrunarrými.

Virðulegur forseti. Nefndin leggur að auki til breytingu á gildistöku sem samkvæmt 3. gr. frumvarpsins er 1. mars sl. Til að tryggja hæfilegan aðlögunartíma er lagt til að gildistakan verði 1. júní 2012.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Að nefndarálitinu standa Álfheiður Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir framsögumaður, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lúðvík Geirsson, Valgerður Bjarnadóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir.

Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Kristján L. Möller, Eygló Harðardóttir og Guðmundur Steingrímsson.

Virðulegur forseti. Ég ítreka breytingartillögurnar samfara þeim orðalagsbreytingum sem nefndin leggur til sem og að tekið verði tillit til að hægt sé að ráða inn í stað félagsráðgjafa þann sem er annars vegar sálfræðingur eða með próf í öldrunarfræðum frá Háskóla Íslands eða sambærilegum skólum. Breytingartillögurnar eru lagðar fram á sérstöku skjali, þingskjali 968.