140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

meðferð einkamála.

575. mál
[17:14]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála um gjafsókn, en frumvarpið er á þskj. 895.

Þetta frumvarp er í sjálfu sér sáraeinfalt. Það hefur verið flutt þrisvar á þremur þingum áður, á 136., 137. og 139. löggjafarþingi. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Atli Gíslason, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Siv Friðleifsdóttir, Þór Saari, Magnús Orri Schram, Árni Þór Sigurðsson, Þráinn Bertelsson og Ólöf Nordal.

Í 126. gr. laga um meðferð einkamála, sem fyrst voru sett ný lög um árið 1991, eru rakin skilyrði gjafsóknar, en gjafsókn er þegar ríkið greiðir kostnað einstaklinga af því að bera mál upp fyrir dómstólum, annaðhvort til þess að sækja mál eða verja. Eins og við vitum er aðgengi að dómstólum mannréttindi og mjög mikilvægt að efnahagur skerði ekki það aðgengi í málum sem hafa almenna þýðingu. Það var því miður gert með lagabreytingu árið 2005 með lögum nr. 7/2005. Þá var felldur úr lögum sá möguleiki að veita gjafsókn ef úrlausn máls hefur verulega almenna þýðingu eða varðar verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjenda.

Það var gagnrýnt harðlega á þeim tíma að þetta ákvæði væri fellt úr lögunum. Það hafði þá verið í lögum um tólf ára skeið án nokkurra vandkvæða. Ástæða lagabreytingarinnar var sögð að ákvæðið væri afar víðtækt og ekki væri forsvaranlegt að ríkið kostaði málshöfðun eða málsvörn einstaklinga af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis.

Það er mat flutningsmanna að sú breyting sem gerð var á árinu 2005 með lögum nr. 7/2005, þrengi verulega að möguleikum almennings til þess að leita réttar síns með málshöfðun gagnvart stjórnvöldum og opinberum aðilum í málum sem geta varðað einstaklinga og almenning miklu. Slíkar takmarkanir eru að mati flutningsmanna í andstöðu við hefðir sem hafa verið að þróast í öðrum lýðræðisríkjum.

Við leggjum því til að aftur verði tekið í lög það ákvæði sem fellt var úr og er hér að finna í b-lið í 1. gr. frumvarpsins, en þar segir, með leyfi forseta:

„Gjafsókn verður aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða er að auki fullnægt:“

Síðan er b-liðurinn sem er annað skilyrðið og er þessi viðbót:

„að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.“

Auk þess, herra forseti, er í a-lið gerð sú breyting á að í stað þess að þar standi að efnahag umsækjanda sé þannig háttað o.s.frv. komið orðið „fjárhag“, en það er ekki aðalatriði.

Sú rýmkun sem hér er lögð til felur í sér að gjafsókn verður möguleg í málum sem eru mikilvæg réttlætismál fyrir hagsmuni einstaklinga og almennings, svo sem mál sem varða heimtu skaðabóta fyrir varanlega örorku þegar örorka er mikil en aflahæfi verulega skert, mál sem varða lífeyrisréttindi, atvinnuréttindi, eignarréttindi, mál sem varða bætur fyrir missi framfæranda, mál vegna læknamistaka, mál um réttindi sem varða friðhelgi einkalífs og önnur mál sem varða hefðbundin mannréttindi. Þá gæti gjafsókn samkvæmt þessu frumvarpi verið veitt í málum einstaklinga gagnvart stjórnvöldum.

Herra forseti. Í greinargerð er bent á að verði frumvarpið að lögum þurfi að breyta ákvæðum reglugerða en segja má að það séu sjálfsagðir hlutir.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið, en það er nú í fjórða sinn lagt fyrir þingið. Mjög mikilvægt er að hrinda þeirri aðför sem gerð var að gjafsókninni á árinu 2005. Hér er ekki um að ræða að verið sé að kalla eftir auknum fjárveitingum til gjafsóknar heldur aðeins að skilyrðin verði rýmkuð til þess sem þau voru um tólf ára skeið, frá 1991 til 2005. Fjárveitingar til gjafsóknar mundu eftir sem áður þurfa að duga fyrir þeim gjafsóknum sem nefnd sem fjallar þar um, gjafsóknarnefnd, tekur ákvörðun um, en henni er ætlað að starfa eftir fastri fjárveitingu.

Auðvitað er það svo, herra forseti, að fjárveitingar til gjafsóknarmála hafa á síðustu árum verið skornar niður eins og margt og flest í rekstri ríkisins en benda má á að kostnaður vegna gjafsóknarmála fellur yfirleitt ekki á ríkissjóð samstundis heldur eftir eitt eða tvö ár. Rýmkun á gjafsóknarreglum eins og sú sem hér er lögð til ætti því ekki að leiða til aukins kostnaðar fyrr en eftir þann tiltekna tíma, og ég ætla að leyfa mér að vona að eftir eitt eða tvö ár verði ríkissjóður betur í stakk búinn til að mæta mögulegum auknum útgjöldum í þessu skyni, sem eru, eins og ég segi, nauðsynleg til þess að tryggja þau sjálfsögðu mannréttindi að menn geti borið upp mál sín fyrir dómstólum og efnahagur standi þar ekki í vegi.

Ég legg svo til, herra forseti, að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.