140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

raforkulög.

409. mál
[17:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ísland vantar atvinnu, meiri atvinnu og meiri atvinnu. Forsendubrestur hjá heimilum landsins fólst í því að tekjurnar minnkuðu vegna þess að menn misstu alla atvinnuna eða hluta af henni, yfirvinnu eða eitthvað slíkt. Þess vegna getur fólk ekki staðið í skilum með lánin sín og er mikil vá fyrir dyrum hjá heimilum landsins. Hér er verið að ræða frumvarp um breytingu á raforkulögum sem mildar þessi áföll á heimilin með því að skapa atvinnu.

Mikið hefur verið rætt um ósnortin víðerni og það að verið sé að eyðileggja þau með virkjunum um allt land. Sums staðar er það með réttu, hins vegar er sú virkjun sem við ræðum hér ekki í ósnortnu víðerni vegna þess að hún er reist þar sem eru tún, vegir, bændabýli og annað slíkt. Því fer mjög fjarri að þetta séu ósnortin víðerni eða að verið sé að ganga á einhvern hátt á náttúruna umfram það sem gert hefur verið. Eins og ég gat um eru þarna tún, vegir o.fl. Það sem er mest um vert, frú forseti, er að búið er að sveiflujafna Þjórsá. Í öllum virkjunum fyrir ofan í Þjórsá er vatnsmagnið sveiflujafnað. Þarna rennur vatnið tiltölulega jafnt vetur, vor, sumar og haust og krefst þar af leiðandi miklu minni sveiflujöfnunar en aðrar sambærilegar virkjanir annars staðar. Menn geta ekki haldið því fram að þarna séu mjög mikil eða stór uppistöðulón þótt þau þurfi að sjálfsögðu að vera einhver vegna þeirra sveiflna sem samt koma niður alla þessa keðju af virkjunum.

Mesta hættan sem ég sé fyrir mér í dag er að mannauður þjóðarinnar fari til útlanda. Við erum að horfa upp á mikinn brottflutning á fólki sem er mjög miður og það er mikil þekking og reynsla sem fer með því fólki sem og dugnaður og framtak. Það er hættulegt. Allar þær virkjanir sem við erum að byggja og allt það sem við köllum auðlind þjóðarinnar er einhvern veginn tengt mannauði. Það að fiskstofnarnir breyttust í auðlind varð ekki fyrr en fiskiskipin urðu það örugg með aukinni þekkingu að við borguðum ekki fyrir fiskinn með mannslífum. Virkjanirnar eru óhugsandi án mannauðs sem felst í þekkingu verkfræðinga, iðnaðarmanna og annarra sem geta reist óskaplega flókin mannvirki. Sú virkjun sem þarna er um að ræða mun kalla á og viðhalda þeim mannauði sem í dag streymir úr landi. Þess vegna er þetta mjög mikilvægt mál.

Það er líka annað, frú forseti, það er talað um að jörðin sé að hitna og hlýna. Það er vegna þess að það er verið að brenna kolum og jarðefnum um allan heim til að búa til orku, oft og tíðum raforku, reyndar ekki í bílum en mikið af koltvíoxíðsmenguninni stafar af því að menn eru að framleiða raforku. Sú raforka sem framleidd er á Íslandi veldur ekki mengun nema í mjög litlum mæli, pínulitlum mæli miðað við það sem gerist úti í heimi. Þess vegna er það allt að því skylda Íslendinga að virkja það sem mögulegt er að virkja án þess að ganga of mikið á náttúruna. Ég tel að virkjun á þessum stað muni ekki ganga á náttúruna vegna þess að þetta eru ekki ósnortin víðerni. Það er búið að byggja heilmikið þarna.

Ég held að við verðum að gangast við þessari skyldu okkar Íslendinga og flytja hingað netþjónabú sem nota þá orku og kælingu á Íslandi sem eru mjög góðar aðstæður til og spara þá að viðkomandi orka sé framleidd í útlöndum með brennslu kola, gass eða olíu. Þetta er hluti af þeirri skyldu okkar Íslendinga við mannkynið að virkja.

Þessi virkjun mun líka kalla á gjaldeyrisinnstreymi vegna þess að það þarf að fá lán og þau eru veitt með trú á þessa virkjun þannig að það lagar gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar. Sú virkjun sem þarna er byggð upp mun standa fyrir þeim lánum sem veitt verða, það mætti jafnvel hugsa sér að setja þetta, eins og ég hef nefnt áður, í sérstakt hlutafélag sem væri til dæmis til 40 ára. Ég ætla samt ekki að fara nánar út í það, ég hef gert það áður.

Í tengslum við þetta þurfum við að taka upp sæstreng vegna þess að hann gerir miklu meira en að flytja út raforku. Hann má jafnvel nota til þess að flytja inn raforku og það má nota sæstreng til að minnka þá sveiflujöfnun sem við notum uppistöðulónin til. Í Kárahnjúkavirkjun mætti sennilega nýta um 20% meira afl ef til væri sveiflujöfnun við umheiminn í gegnum sæstreng. Ef þetta færi í gang væri þetta hluti af því. Það sem gerði kannski gæfumuninn ef þetta frumvarp yrði að lögum er að fólk mundi loksins öðlast nokkra trú á landið sitt og að hér færi eitthvað að gerast. Ég styð þetta frumvarp eindregið þótt ég sé af einhverjum ástæðum ekki flutningsmaður þess.