140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

580. mál
[17:58]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um almenna niðurfærslu á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar. Flutningsmenn eru sá er hér stendur, hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir og Margrét Tryggvadóttir, Hreyfingunni, og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, Framsóknarflokki.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að efnahags- og viðskiptaráðherra skipi þriggja manna starfshóp, óháðan hagsmunaaðilum, sem útfæri áætlun um almenna niðurfærslu á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila. Áætlunin skal byggð á því að þær skuldir sem til eru komnar vegna hækkunar vísitölu neysluverðs frá árslokum 2007 og eru umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands verði fluttar frá heimilunum í sérstakan afskriftasjóð fasteignaveðlána auk breytinga á verðtryggingarákvæðum slíkra lána. Starfshópurinn geri tillögu til ráðherra um stofnun sjóðsins og nauðsynlegar lagabreytingar. Starfshópurinn ljúki störfum ekki síðar en 31. mars 2012. Miða skal við að áætlunin komi til framkvæmdar ekki síðar en 1. júní 2012.“

Hér er komin tillaga sem gerir ítarlega grein fyrir því hvernig hægt er að fara í slíka aðgerð sem almenn niðurfærsla á skuldum heimilanna er og hverjir eiga að borga fyrir hana. Við lögðum málið fyrst fram við forustumenn stjórnarflokkanna rétt eftir jólin og kynnum það nú sem tillögu til þingsályktunar. Þetta er mjög ítarleg og vandlega unnin tillaga.

Í greinargerð með tillögunni segir, með leyfi forseta, eftirfarandi:

„Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að efnahags- og viðskiptaráðherra skipi þriggja manna starfshóp, óháðan hagsmunaaðilum, sem útfæri áætlun um almenna niðurfærslu á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila. Í áætluninni felst að þær skuldir sem til eru komnar vegna hækkunar vísitölu neysluverðs frá árslokum 2007 og eru umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, verði fluttar frá heimilunum og í sérstakan afskriftasjóð fasteignaveðlána. Auk þess er gert ráð fyrir að breytingar verði gerðar á verðtryggingarákvæðum slíkra lána. Tillagan gerir ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum eigi síðar en 31. mars 2012 og að útfærslan verði eins og nánar er útlistað í meðfylgjandi greinargerð“ — sem hér er lesið upp úr. — „Tillagan gerir ráð fyrir að áætlunin komi til framkvæmdar ekki síðar en 1. júní 2012.

Frá áramótum 2007/2008 hafa eftirstöðvar verðtryggðra fasteignaskulda heimilanna hækkað um 362,8 milljarða eða 37,4% vegna hækkunar á vísitölu neysluverðs. Þessi mikla hækkun hefur sett þúsundir heimila í mikinn vanda en fjöldi heimila með fasteignaveðlán í lok árs 2010 var um 72.700. Tugir þúsunda heimila eru komnir með neikvæða eiginfjárstöðu sem þau munu ekki ná sér upp úr í fyrirsjáanlegri framtíð og sú staða mun fyrr eða síðar leiða til uppgjafar og verða dragbítur á allt efnahagslíf í landinu.

Hækkun þessi er til komin vegna hruns bankakerfisins og gengisfalls krónunnar, atburða sem ekki voru fyrirsjáanlegir lántakendum sem byggðu lántökur sínar á upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum, úr fjölmiðlum en ekki síst frá ráðamönnum þjóðarinnar sem alveg fram á síðustu daga fyrir hrunið staðhæfðu að engin hætta væri í aðsigi.

Það hefur því orðið alger forsendubrestur fyrir öllum greiðslumöguleikum á fasteignaveðlánum heimila landsins, forsendubrestur sem ekki er ásættanlegt að þau beri ein og sér. Það er því brýnt að heimilunum sé skapaður ásættanlegur og réttlátur grunnur til að standa undir sér og að þessar miklu hækkanir verði leiðréttar, enda eins og áður sagði til komnar vegna forsendubrests sem heimilunum var stöðugt tilkynnt að gæti ekki orðið. Tillaga þessi gengur út á að leiðrétta þennan forsendubrest án þess að það leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð og Íbúðalánasjóð og hlífi einnig eignahlið efnahagsreikninga lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja við skelli.

Leiðréttingin gengur út á að sú hækkun á fasteignaveðlánum heimilanna sem varð vegna hækkunar á vísitölu neysluverðs umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans verði færð af heimilunum og yfir í sérstakan sjóð, afskriftasjóð fasteignaveðlána, sem verður eign í efnahagsreikningum skuldaeigendanna. Þar myndar þessi hluti lánanna nýtt óverðtryggt lán sem ber árlega 3,5% vexti. Sjóður þessi verður greiddur niður með 25 jöfnum árlegum greiðslum, í fyrsta sinn einu ári eftir stofnun sjóðsins. Sjóðnum verði skapaðar tekjur eins og greint er frá hér að aftan.“

Frú forseti. Slík aðgerð verður ekki högg á efnahagsreikninga lífeyrissjóða og fjármálastofnana og eins og sést í þessari tillögu er hún vel framkvæmanleg og mun ekki valda þessum aðilum tjóni.

Svo ég haldi áfram með greinargerðina má sjá í töflu 1 sundurliðun á fasteignaveðlánum, annars vegar eftir tegund láns og hins vegar eftir lánveitanda. Þar kemur fram að verðtryggð fasteignaveðlán stóðu í 1.199 milljörðum við árslok árið 2011.

Á næstu blaðsíðu í töflu 2 er yfirlit um hækkanir á fasteignaveðlánum en þar kemur fram að hækkun á lánum vegna hækkunar á vísitölu neysluverðs frá ársbyrjun 2008 til ársloka 2011 er 362,8 milljarðar. Hækkun á þessum lánum miðað við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 94 milljarðar þannig að hækkun lánanna að frádregnu þessu þaki, 2,5%, eins og tillagan gerir ráð fyrir að verði, er 268,8 milljarðar.

Samkvæmt því er forsendubrestur lánanna því 268,8 milljarðar sem jafngildir 22,4% af eftirstöðvum verðtryggðra fasteignaveðlána um síðastliðin áramót.

Fjármálafyrirtæki hafa að einhverju leyti þegar komið til móts við lántaka vegna hækkunar á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána og samkvæmt upplýsingum frá Samtökum fjármálafyrirtækja nam sú leiðrétting um 37,7 milljörðum í byrjun október 2011. Ef gert er ráð fyrir að helmingur þeirrar upphæðar teljist leiðrétting á verðbótum, þ.e. 18,9 milljarðar, þykir rétt að taka tillit til þess og lækka reiknaðan forsendubrest sem því nemur. Verði sýnt fram á að meiri leiðréttingar á verðbótum hafi þegar farið fram lækkar þessi tala enn frekar.

Lagt er til að í afskriftasjóð fasteignaveðlána færist allar áfallnar verðbætur á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimilanna umfram 2,5% þak, að frádregnum þeim leiðréttingum sem þegar hafa farið fram. Staða sjóðsins yrði því við stofnun 250 milljarðar. Þar sem Íbúðalánasjóður er í raun aðeins milliliður fyrir fjármagnseigendur sem fjármagna íbúðakaup fer hlutur Íbúðalánasjóðs í afskriftunum yfir til handhafa skuldabréfanna sem Íbúðalánasjóður og forverar hans hafa gefið út til þess að fjármagna útlán sín til íbúðakaupenda. Eigendur afskriftasjóðsins, þ.e. kröfuhafar, verða því innlánsstofnanir, aðrir eigendur HFF-bréfa og annarra bréfa Íbúðalánasjóðs sem ekki eru í eigu lífeyrissjóða og lífeyrissjóðirnir. Eign þeirra er í sömu hlutföllum og kröfur þeirra hljóða upp á og fá þeir kröfur sínar greiddar á 25 árum með jöfnum árlegum greiðslum. Miðað er við að höfuðstóll kröfunnar beri 3,5% vexti. Það þýðir að sjóðurinn þarf að standa undir 15,168 milljörðum kr. í inngreiðslu árlega. Fyrsta árið mun sú greiðsla skiptast þannig að 3,322 milljarðar koma frá sérstöku 0,25% vaxtaálagi á öll fasteignaveðlán, 2,874 milljarðar frá lífeyrissjóðum, 6,284 milljarðar frá innlánsstofnunum og öðrum handhöfum skuldabréfa Íbúðalánasjóðs en lífeyrissjóðunum og 2,688 milljarðar frá svokölluðum eltandi vaxtabótum.

Tillagan gerir ráð fyrir að sjóðnum verði skapaðar tekjur til 25 ára til að standa undir útgjöldum sínum. Þær tekjur eru fjórþættar:

a. Sérstakt vaxtaálag verði lagt á öll fasteignaveðlán. Nemur það í upphafi 0,25%, en lækkar árlega um 0,01% uns það verður 0,10% þegar tíu ár eru eftir af endurgreiðslutímabilinu og helst óbreytt eftir það. Miðað við forsendur sem gera ráð fyrir 3% árlegri aukningu í fasteignaveðlánum verður sá hluti 3,32 milljarðar fyrsta árið en 2,7 milljarðar síðasta árið.

b. Lagður verði árlegur tímabundinn eignarskattur á eignir innlánsstofnana og HFF-bréfa eign annarra en lífeyrissjóða. Nemur hann 0,195% í upphafi, en lækkar um 0,005% árlega og endar í 0,075% á 25. ári. Miðað við forsendur sem gera ráð fyrir 5% árlegri eignaaukningu verður sá hluti 6,28 milljarðar fyrsta árið en 7,8 milljarðar síðasta árið.

c. Vaxtabætur, svokallaðar eltandi vaxtabætur, sem annars hefði verið ráðstafað í vaxtabætur til heimilanna, ef ekki hefði komið til niðurfærslna á skuldum, verða notaðar í staðinn til niðurgreiðslu sjóðsins. Miðað við útgreiddar vaxtabætur árið 2011, sem voru um 12 milljarðar, og að 22,4% lækkun verði á þeim eru þetta 2,69 milljarðar fyrsta árið. Miðað er við að þessi upphæð lækki hlutfallslega í samræmi við höfuðstól afskriftasjóðsins og verða þær því komnar niður í 158 millj. kr. síðasta árið.

d. Afgangurinn af fjármögnun sjóðsins verður fenginn með sérstökum tímabundnum eignarskatti á eignir lífeyrissjóða. Nemur hann 0,14% í upphafi, en lækkar árlega og endar í 0,07% á 25. ári. Miðað er við forsendur sem gera ráð fyrir 5% árlegri eignaaukningu lífeyrissjóða og verður hluti lífeyrissjóðanna 2,8 milljarðar kr. fyrsta árið en 4,5 milljarðar kr. síðasta árið.

Með þessu er lagt til að byrðarnar af leiðréttingunni dreifist á marga aðila. Í útreikningum á greiðslum lántaka er gert ráð fyrir vexti fasteignaveðlána um 3% á ári, hvort heldur er af nýjum lánum eða vegna verðbóta á eldri. Verði vöxtur lánanna meiri er hægt að draga hraðar úr vaxtaálaginu, lækka sérstakan eignarskatt hraðar eða greiða eftirstöðvar sjóðsins hraðar upp. Í útreikningum á greiðslum lánafyrirtækjanna er gert ráð fyrir 5% árlegum vexti eigna.

Þar sem lífeyrissjóðirnir eru afgangsstærð í fjármögnun afskriftasjóðsins og í raun nettó þiggjendur greiðslna úr sjóðnum mun þessi aðgerð ekki koma illa við lífeyrissjóðina svo neinu marki nemi. Þess ber að geta að lífeyrissjóðirnir hafa þegar fengið um 170 milljarða eingöngu í verðbætur af lánum til heimilanna frá áramótum 2007/2008 auk þess að hafa fengið 33,4 milljarða afslátt í svokölluðum Avens-viðskiptum. Flutningsmenn telja að bæði lífeyrissjóðir og innlánsstofnanir hafi góða getu til að standa undir þeim greiðslum sem hér um ræðir. Hagnaður bankanna frá hruni hefur sýnt að þar er vel borð fyrir báru og eiginfjárstaða þeirra er sterk. Hvað lífeyrissjóðina varðar eru þetta hlutfallslega mjög lágar upphæðir sem ekki vega þungt. Yngri kynslóðir sjóðfélaga greiða nú þegar háar upphæðir til að rétta af skekkjuna sem er milli lofaðs réttindaávinnings og raunverulegs. Framlag sjóðanna til uppgjörs afskriftasjóðs fasteignaveðlána mundi þá skila til baka hluta af þeim peningum sem yngri sjóðfélagar hafa lagt í þessa kynslóðatilfærslu. Reyndin er þó sú að afslátturinn sem fékkst vegna Avens-bréfanna gerir miklu meira en að dekka hlut lífeyrissjóðanna vegna inngreiðslna í afskriftasjóðinn.

Samhliða þessu er lagt til að verðtrygging á nýjum fasteignaveðlánum verði afnumin með öllu og að verðtrygging eldri lána verði lögfest með hámarki í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands sem nú er 2,5%.

Þar sem um almenna aðgerð er að ræða er einnig lagt til að hugað verði að því sem heildarlausn hvort hægt sé að færa öll óverðtryggð fasteignaveðlán sem ekki falla undir gengislánadóma Hæstaréttar yfir í þetta umhverfi frá og með áramótum 2007/2008 og meðhöndla þau með sama hætti og verðtryggðu lánin.

Flutningsmenn telja að sú framkvæmd sem hér er lögð til muni hafa gríðarlega jákvæð áhrif á efnahagslífið í heild sinni og skila öllum kröfuhöfum fasteignaveðlána öruggari og betri stöðu að endingu vegna þeirrar miklu óvissu um þessar skuldir sem minnkar verulega með þessari framkvæmd.

Með þingsályktunartillögunni eru þrjú fylgiskjöl með útreikningum.

Frú forseti. Í fskj. I má sjá tölur um eignir banka, lífeyrissjóða og annarra handhafa HFF-bréfa. Þar kemur í ljós að við lok þriðja ársfjórðungs 2011 voru eignir innlánsstofnana 2.852,9 milljarðar, eignir lífeyrissjóða voru 2.078 milljarðar og eignir HFF-bréfa eigenda voru 369,6 milljarðar.

Í fskj. II má sjá hvernig gert er ráð fyrir að þróun þessara eigna verði næstu 25 árin miðað við að þingsályktunartillagan taki gildi. Þar sést að sem hlutfall af heildareignum lækkar þessi tala umtalsvert eftir því sem árin líða og á seinasta ári niðurgreiðslnanna, árið 2036, eru greiðslur frá fjármálafyrirtækjum um 7,8 milljarðar eða 0,075% af eignum, greiðslur frá lífeyrissjóðum eru 4,5 milljarðar eða 0,07%, greiðslur frá álagi á vexti verða 2,7 milljarðar og framlag ríkissjóðs úr svokölluðum eltandi vaxtabótum, sem annars hefði farið til þess að greiða vaxtabætur ef niðurfærsla á höfuðstól hefði ekki komið til, er 158 millj. kr.

Frú forseti. Þessi þingsályktunartillaga er mikilvæg, sennilega mikilvægasta innleggið sem komið hefur í þessa umræðu þar sem hér er ítarlega gerð grein fyrir því með hvaða hætti hægt er að fara út í þessa aðgerð. Tölurnar eru unnar af sérfræðingum og bornar undir sérfræðinga, meðal annars í fjármálaráðuneyti og Seðlabanka. Öllum spurningum varðandi tölurnar hefur verið svarað og engar spurningar hafa komið upp sem ekki hefur verið hægt að svara.

Ég legg til að þingsályktunartillagan fari til efnahags- og viðskiptanefndar í framhaldi af þessari fyrri umr. og að þar verði hún tekin inn í væntanlegan þverpólitískan hóp þingmanna og þingflokka sem vinna að þessu mikilvæga máli.