140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun.

562. mál
[18:40]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 562, hvers 1. flutningsmaður er hv. þm. Mörður Árnason en ég hef tekið að mér í hans stað að mæla fyrir málinu. Það lýtur að póstverslun í landinu. Hv. þingmaður er því miður bundinn við skyldustörf á vettvangi Evrópuráðsins erlendis.

Hv. þm. Mörður Árnason hefur beitt sér hér fyrir því að teknar væru til athugunar nokkrar úrbætur í skattkerfinu sem lúta að því að láta það fylgja takti tímans, ef svo má segja, og þróast með nýjum atvinnugreinum. Þar höfum við þegar gert að lögum tillögur sem byggðu á frumvörpum hans og lutu að rafrænum bókum, en það er ný og vaxandi útgáfustarfsemi. Í tengslum við það innleiddum við talsvert víðtækari breytingar raunar sem greiða skapandi greinum leið í því nýja viðskiptaumhverfi. Var það sannarlega mikið framfaramál í skattamálum hér á landi.

Það sem hv. þm. Mörður Árnason hefur í þessu máli sett á dagskrá er að skipuð verði nefnd er leiti leiða til að einfalda og auðvelda alla póstverslun. Hér fylgir þingmaðurinn líka eftir breytingum í verslun og viðskiptum sem orðið hafa á undanförnum árum, ekki síst með tilkomu internetsins og þeirri staðreynd að æ auðveldara er að panta sér vörur annars staðar að, en margt í tolla- og vörugjaldaskattumhverfi okkar og sömuleiðis póstafgreiðslukerfi er ekki nægilega sniðið að þessum breyttu viðskiptaháttum. Það má sannarlega einfalda og auðvelda, ekki síst í tilfelli smásendinga að gera þær ódýrari og einfaldari fyrir neytendur, og sömuleiðis að skapa skilyrði fyrir fyrirtæki sem sækja fram í þessu nýja og vaxandi viðskiptaumhverfi að starfa hér og vaxa og dafna.

Ég geri að tillögu minni að að lokinni þessari umræðu muni málið ganga til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.

(Forseti (ÁI): Fleiri hafa ekki kvatt sér hljóðs og er umræðu lokið. Tillagan gengur nú til síðari umræðu og hv. umhverfis- og samgöngunefndar ef enginn hreyfir andmælum.)