140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

málefni SpKef.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessi svör. Ég vænti þess að hægt verði að fá upplýsingar um stöðu málsins. Það er í sjálfu sér skiljanlegt að hæstv. forsætisráðherra fylgist ekki með stöðu málsins dagsdaglega, en það ætti að vera hægur leikur að fá upplýsingar um það hversu langt gerðardómsmeðferðin hefur gengið.

Ég fagna því jafnframt að við séum sammála um það, ég og hæstv. forsætisráðherra, að eðlilegt sé að þegar greinargerðir aðilanna eru tilbúnar og fram komnar verði þær gerðar opinberar. Forsætisráðherra nefnir að þingnefndir að minnsta kosti eigi að hafa að þeim aðgang og fyrir mér er það í sjálfu sér sami hlutur vegna þess að þingnefndir taka á málum í raun og veru í krafti þess umboðs sem þær hafa frá almenningi. Því fagna ég þessari meginniðurstöðu og við skulum svo sjá hvort (Forseti hringir.) það séu einhverjar sérstakar ástæður til að hafa málflutninginn sjálfan fyrir gerðardómi, ef hann verður munnlegur, ekki fyrir opnum tjöldum, en meginreglan hlýtur að vera sú þegar ríkissjóður og ríkisbanki eiga í hlut að allt eigi að vera fyrir opnum tjöldum.